Landinn eyddi meiru í hótel og veitingastaði

Kortavelta Íslendinga á hótelum og matsölustöðum var töluvert meiri í nóvember en á sama tíma í fyrra.

Eitt af hótelbergjum Icelandairhótelanna. Mynd: Icelandairhótelin

Nú í haust hafa Íslendingar bókað fleiri gistinætur á íslenskum hótelum en í september og október í fyrra samkvæmt útreikningum Hagstofunnar. Niðurstaðan fyrir nóvember liggur ekki fyrir en útlit er fyrir að töluverð aukningu því í síðasta mánuði voru hótelreikningar upp á 618 milljónir króna greiddir með íslenskum greiðslukortum. Þetta er 21 prósent aukning frá nóvember í fyrra samkvæmt nýbirtum kortaveltutölum Rannsóknarmiðstöðvar verslunarinnar.

Og það er fleira í nýjum tölum Rannsóknarmiðstöðvar verslunarinnar sem gefur til kynna að Íslendingar hafi ferðast meira innanlands í nóvember. Þannig jukust úttektir á íslensk greiðslukort um 6,5 prósent á veitingahúsum landsins og veltan á  söfnum og galleríum jókst um nærri þrjá fjórðu. Einnig greiddu Íslendingar meira fyrir afnot af íslenskum bílaleigubílum í síðasta mánuði.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista