Leiðsögumenn Gray Line á Íslandi verðlaunaðir

Íslenskir leiðsögumenn setja gæðamörk sem allir aðrir vilja fara eftir segir framkvæmdastjóri Gray Line Worldwide. Þeir íslensku voru nýverið valdir þeir bestu í heimi innan samsteypunnar.

Nokkrir af leiðsögumönnum Gray Line með viðurkenningarskjöldinn. Frá vinstri Simon Pizarro, Guðrún Dagmar, Elly Sigfúsdóttir og Guðmundur Finnsson.

Gray Line á Íslandi hlaut nýlega viðurkenningu Gray Line Worldwide fyrir að vera með bestu leiðsögumennina í þjónustuneti samtakanna. Viðurkenningin byggir á umsögnum viðskiptavina fyrirtækjannan innan Gray Line samtakanna, en þau eru 190 talsins og starfa um allan heim. Viðskiptavinir eru um 25 milljónir á ári á rúmlega 700 áfangastöðum.

„Þessi viðurkenning staðfestir það sem við heyrum daglega frá viðskiptavinum okkar þegar þeir lýsa sérstaklega mikilli ánægju með frammistöðu leiðsögumanna okkar í dagsferðum og afþreyingarferðum. Hjá Gray Line á Íslandi starfa fastráðnir jafnt sem lausráðnir leiðsögumenn og þeir eru svo sannarlega vel komnir að þessari viðurkenningu,“ segir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line á Íslandi, í tilkynningu.

Þar er jafnframt haft eftir Brett Asbury, framkvæmdastjóri Gray Line Worldwide, segir að niðurstaðan sé fengin með því að safna saman umsögnum sem fyrirtækin fá, svo og umsögnum á samfélagsmiðlum. „Viðhorfskannanir meðal viðskiptavina sýna að frammistaða leiðsögumanna skiptir höfuðmáli til að upplifun þeirra verði sem jákvæðust. Íslensku leiðsögumennirnir setja gæðamörk sem allir aðrir vilja fara eftir, læra af þeim og stuðla að því að standa undir væntingum viðskiptavina.“