Leigja flugvél til Mósambik

Tvær af Bombardier flugvélum Air Iceland Connect hafa verið til sölu. Sú stærri er farin til Afríku.

Bombardier Q400 flugvél Air Iceland Connect. Nú hefur félagið leigt eina slíka frá sér til næstu fimm ára. Mynd: Air Iceland Connect

Það styttist í að Bombardier Q400 flugvél Air Iceland Connect verði notuð til að ferja farþega flugfélagsins LAM í Mósambik í Afríku. Þetta 83 ára gamla flugfélag leigði nýverið flugvélina til næstu fimm ára og að sögn Árna Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Air Iceland Connect, er um að ræða svokallaða þurrleigu. Það þýðir að flugvélin er leigð án áhafna og sér leigutakinn líka um viðhald.

Air Iceland Connect hefur í nokkurn tíma stefnt að því að koma tveimur af flugvélum sínum í verð. Fyrrnefndri Q400 flugvél sem getur flutt allt að 76 farþega og svo annarri Bombardier Q200 sem er með helmingi færri sæti. Sú minni er ennþá til sölu að sögn Árna.

Auk þess að vera umsvifamesta flugfélagið í innanlandsflugi hér á landi þá er Air Iceland Connect stórtækt í flugi til Grænlands og býður einnig upp á áætlunarferðir til Færeyja. Áður sinnti flugfélagið einnig flugi til Aberdeen í Skotlandi og Belfast á Norður-Írlandi og voru Q400 flugvélar félagsins nýttar í þær ferðir.

Eftir útleiguna til Afríku þá eru fimm flugvélar eftir í flugflota Air Iceland Connect, tvær Q400 og þrjár Q200.

SMELLTU EF ÞÉR FINNST EITTHVAÐ Í TÚRISTA SPUNNIÐ