Leigja þotur til að brúa bilið

Áfram lengist biðin eftir MAX þotunum og nú hefur Icelandair gengið frá leigu á tveimur og jafnvel þremur þotum af gerðinni Boeing 737.

Boeing MAX þotur tilbúnar til afhendingar við verksmiðjur Boeing skammt frá Seattle. MYND: SOUNDERBRUCE / CREATIVECOMMONS 4.0)

Allt frá því að allar þotur af gerðinni Boeing MAX voru kyrrsettar í mars, í kjölfar tveggja flugslysa þar sem 346 manns misstu lífið, þá hefur framleiðsla á þotunum haldið áfram. Núna standa um fjögur hundruð splunkunýjar Boeing MAX þotur tilbúnar til afhendingar á flugbrautum og bílastæðum í nágrenni við verksmiðjur flugvélaframleiðandans á svæðinu í kringum Seattle. Framleiðslu þotanna verður nú hætt tímabundið líkt og stjórn Boeing tilkynnti um í gær.

Af þeim sökum reiknar forsvarsfólk Icelandair nú fyrst með geta hafið farþegaflug með MAX þotunum í byrjun maí. Áður hafði verið gert ráð fyrir vélunum í flugáætlun félagsins í byrjun mars. Þessi seinkun hefur lítil áhrif á farþega og flugáætlun félagsins á þessu tímabili samkvæmt því sem segir í tilkynningu frá flugfélaginu nú í morgun.

Þar kemur jafnframt fram að vegna kyrrsetningar MAX vélanna verða fleiri Boeing 757 flugvélar áfram í rekstri hjá félaginu á næsta ári en upphaflega hafði verið áætlað. „Þá hefur félagið tekið á leigu tvær Boeing 737-800 NG flugvélar sem koma í rekstur í vor og gerir þar að auki ráð fyrir að bæta þriðju leiguvélinni við. Á næstu dögum verður haft samband við þá farþega sem breytingarnar hafa áhrif á.“

Í tilkynningunni er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair samstæðunnar að vegna mótvægisaðgerða, sem gripið hafi verið til, þá komi þessi breyting til með að hafa lítil áhrifin á framboð og farþega flugfélagsins. „Við settum flugáætlunina fyrir næsta ár upp þannig að áhrif frekari kyrrsetningar MAX vélanna yrðu takmörkuð. Við erum því vel í stakk búin til að takast á við þær áskoranir sem framundan eru, bæði hvað flotamálin varðar sem og aðra þjónustu félagsins við farþega.“

Eins og áður hefur verið tilkynnt um hefur Icelandair Group í tvígang gert bráðabirgðasamkomulag við Boeing um bætur fyrir hluta þess tjóns sem félagið hefur orðið fyrir vegna kyrrsetningar MAX vélanna. Áframhaldandi viðræður við Boeing um að fá heildartjón vegna kyrrsetningarinnar bætt standa enn yfir.