Liv áfram í ferða­þjón­ustu

Fyrrum forstjóri Nova er nýr stjórnarformaður Keahótelanna. Hún er jafnframt í stjórn Bláa lónsins og var áður stjórnarformaður WOW.

Liv Bergþórsdóttir nýr stjórnarformaður og Páll L. Sigurjónsson forstjóri Keahótela á hótel Borg. Mynd: Keahótelin

Liv Berg­þórs­dóttir hefur tekið við formennsku í stjórn Keahótela sem reka í dag ellefu hótel hér á landi og þar af sjö í Reykjavík. Liv var áður forstjóri síma­fyr­ir­tæk­isins Nova en hefur líka reynslu af stjórn­ar­störfum í ferða­þjón­ustu. Þannig var hún lengi stjórn­ar­formaður WOW air og tók sæti í stjórn Bláa lónsins fyrr á árinu.

Síðustu ár hefur Banda­ríkja­mað­urinn Jonathan Rubini verið stjórn­ar­formaður Khea­hót­el­anna en félag í hans eigu ásamt Pt Capital keyptu meiri­hluta í fyrir­tækinu árið 2017. „Liv mun vinna með eigendum og stjórn­endum félagsins að frekari uppbygg­ingu og þróun þess. Þá mun hún jafn­framt halda utan um aðrar fjár­fest­ingar Rubinis hér á landi,” segir í tilkynn­ingu

„Við sem fjár­festar höfum mikinn áhuga á Íslandi og sjálfur hef ég bjarg­fasta trú á að Ísland verði vinsæll ferða­mannastaður til fram­tíðar. Við kynnt­umst Liv í gegnum fjár­fest­ingu okkar í Nova og hlökkum til að vinna með henni að nýjum verk­efnum,” segir Rubini í tilkynn­ingu.

Þar er haft eftir Liv að hún hlakki til að kynnast hótel­geir­anum betur. „Þetta er krefj­andi og spenn­andi samkeppn­ismark­aður. Það verður skemmtileg áskorun að vinna með stjórn­endum Keahótela að því að þróa félagið áfram og auka enn frekar ánægju gesta,” bætir Liv við.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista