Liv áfram í ferðaþjónustu

Fyrrum forstjóri Nova er nýr stjórnarformaður Keahótelanna. Hún er jafnframt í stjórn Bláa lónsins og var áður stjórnarformaður WOW.

Liv Bergþórsdóttir nýr stjórnarformaður og Páll L. Sigurjónsson forstjóri Keahótela á hótel Borg. Mynd: Keahótelin

Liv Bergþórsdóttir hefur tekið við formennsku í stjórn Keahótela sem reka í dag ellefu hótel hér á landi og þar af sjö í Reykjavík. Liv var áður forstjóri símafyrirtækisins Nova en hefur líka reynslu af stjórnarstörfum í ferðaþjónustu. Þannig var hún lengi stjórnarformaður WOW air og tók sæti í stjórn Bláa lónsins fyrr á árinu.

Síðustu ár hefur Bandaríkjamaðurinn Jonathan Rubini verið stjórnarformaður Kheahótelanna en félag í hans eigu ásamt Pt Capital keyptu meirihluta í fyrirtækinu árið 2017. „Liv mun vinna með eigendum og stjórnendum félagsins að frekari uppbyggingu og þróun þess. Þá mun hún jafnframt halda utan um aðrar fjárfestingar Rubinis hér á landi,“ segir í tilkynningu

„Við sem fjárfestar höfum mikinn áhuga á Íslandi og sjálfur hef ég bjargfasta trú á að Ísland verði vinsæll ferðamannastaður til framtíðar. Við kynntumst Liv í gegnum fjárfestingu okkar í Nova og hlökkum til að vinna með henni að nýjum verkefnum,” segir Rubini í tilkynningu.

Þar er haft eftir Liv að hún hlakki til að kynnast hótelgeiranum betur. „Þetta er krefjandi og spennandi samkeppnismarkaður. Það verður skemmtileg áskorun að vinna með stjórnendum Keahótela að því að þróa félagið áfram og auka enn frekar ánægju gesta,” bætir Liv við.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista