Neysla ferðamanna stendur nærri því í stað þrátt fyrir allt

Jafnvel þó verulegur samdráttur hafi átt sér stað í fjölda ferðamanna hér á landi þá minnkar heildarneysla erlendra ferðamanna hér á landi lítið sem ekkert.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar þá hefur heildarneysla erlendra ferðamanna ekki dregist saman í takt við fækkun túrista. Mynd: Andrik Langfield / Unsplash

Tekjur af farþegaflutningum með flugi lækkuðu um 29 prósent á þriðja fjórðungi ársins sem skrifast væntanlega að langmestu leyti á fall WOW air. Á þessu þriggja mánaða tímabili fækkaði ferðafólki hér á landi um sautján af hundraði samkvæmt talningu Ferðamálastofu en þrátt fyrir það dróst neysla ferðamanna aðeins saman um 4 prósent. Þetta kemur fram í nýjum skammtímahagvísi Hagstofunnar fyrir ferðaþjónustu.

Á öðrum fjórðungi ársins stóð neysla ferðamanna í stað en þá fækkaði samt ferðamönnunum um fimmtung. En á þeim fyrsta jókst neyslan um átta prósent en WOW air fór í þrot í lok þess tímabils. Ferðafólki fækkaði þá um aðeins fimm af hundraði sem skrifast meðal annars á þá staðreynd að WOW air skar flugáætlun sína þónokkuð saman í ársbyrjun.

Neysla erlendra ferðamanna hér á landi er ekki eini mælikvarðinn í ferðaþjónstu sem hefur þróast með jákvæðari hætti en fjöldi ferðamanna. Í gistitölum Hagstofunnar fyrir október kemur fram að fjöldi hótelnótta útlendinga jókst um nærri þrjá af hundraði og fór yfir 370 þúsund. Svo margar hafa gistinætur útlendinga á íslenskum hótelum ekki áður verið í þessum mánuði. Til samanburðar má nefna að hótelnætur útlendinga voru 338 þúsund í júlí árið 2015 en þann mánuð komu hingað um 181 þúsund ferðamenn en þeir voru 163 þúsund í október.

Þegar horft er til allra skráðra gistikosta þá fækkaði nóttunum um innan við einn af hundraði í október. Aftur á móti fækkaði í heimagistingu um nærri fimmtung samkvæmt áætlun Hagstofunnar. Eins og Túristi hefur áður fjallað um þá vilja talsmenn Airbnb ekkert segja um hvort þessi áætlun Hagstofunnar á umsvifum þeirra sé nærri raunveruleikanum.

FINNST ÞÉR EITTHVAÐ GAGN Í SKRIFUM TÚRISTA?