Hætta Íslandsflugi frá Bergen

Áætlunarflug til Íslands frá næst fjölmennustu borg Noregs er ekki hluti af sumaráætlun Norwegian.

Verk Ragnar Kjartanssonar fer ekki framhjá nokkrum manni sem til Bergen kemur. Mynd: Avinor

Það var vorið 2014 sem Norwegian hóf að fljúga til Íslands frá Bergen en árin á undan hafði Íslandsflug þessa þriðja stærsta lággjaldaflugfélags Evrópu takmarkast við þrjár ferðir í viku frá Ósló. Þaðan fljúga þotur félagsins ennþá en aftur á móti er ekki gert ráð fyrir flugi milli íslands og Bergen í sumaráætlun Norwegian á næsta ári.

„Ég get staðfest að flugi okkar milli Bergen og Keflavíkur verður ekki haldið áfram sumarið 2020. Í takt við þá stefnumörkun okkar að leggja megin áherslu á arðsemi frekar en vöxt þá höfum við rýnt í leiðakerfið og gert á því breytingar. Af þeim sökum var tekin ákvörðum um að leggja niður flugleiðina milli Bergen og Keflavíkur,“ segir Andreas Hjørnholm, talsmaður Norwegian, í svari við fyrirspurn Túrista.

Þar með liggur fyrir að næsta sumar verður Icelandair eitt um flugið til Bergen. Flugáæltun félagsins gerir ráð fyrir daglegum brottförum til þangað yfir aðalferðamannatímann en um vorið og næsta haust verða ferðirnar ekki eins tíðar.

Íslandsflug Norwegian hefur tekið töluverðum breytingum síðustu ár. Nú í vetur heldur félagið uppi áætlunarflugi hingað frá Ósló, Barcelona, Alicante, Tenerife, Las Palmas og Madríd. Síðasta ferðin frá spænsku höfuðborginni er reyndar á dagskrá stuttu eftir áramót. Norwegian hefur líka spreytt sig á flugi hingað frá Stokkhólmi, Róm og London.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista