Play áfram á „pause“ en ekkert stopp

Biðin eftir því að miðasala í flugferðir Play hefjist hefur dregist á langinn. Fjármögnun félagsins er ekki í höfn eins og skilja mátti á blaðamannafundinum í Perlunni í byrjun nóvember.

Tölvuteikning: Play

Allt frá því að hulunni var svipt af nafni Play fyrir nærri fjórum vikum síðan þá hefur verið stefnt á að hefja sölu á flugmiðum fyrir lok nóvember. Það hafðist ekki og í færslu sem birtist á Facebooksíðu félagsins í gær segir að hjá nýju fyrirtæki geti hlutirnir geti tekið lengri tíma en ráð var fyrir gert.

Þeir sem biðu með að bóka farmiða til Alicante, Tenerife, Kaupmannahafnar, London, Berlínar, Parísar eða Berlínar á næsta ári verða því að hinkra eða panta far með hinum flugfélögum sem fljúga til þessara sex áfangastaða sem Play stefnir til.

Núna er vonast til að miðasala hefjist fyrir áramót samkvæmt því sem fram kom í fréttum Rúv í dag. Þar er haft eftir Maríu Margréti Jóhannsdóttur, upplýsingafulltrúa Play, að fjármögnun þess gangi mjög vel þó hún hafi dregist á langinn. María Margrét bætir því við að félagið muni ekki hefja flugáætlun fyrr en fjármögnun upp á 1,7 milljarð króna hafi verið tryggð.

Hin svokallaða grunnfjármögnun Play dugar þá ekki þó skilja hafi mátt orð Arnars Más Magnússonar, forstjóra Play, á blaðamannafundi í Perlunni þann 5. nóvember, þannig sem nægt fé væri í höfn. „Við erum fjármögnuð til lengri tíma. Það var okkur gríðarlega mikilvægt og það fyrsta sem lagt var upp með. Við munum ekki fara af stað nema vera með nægjanlegt fé. Bæði fyrir byrjunina, fyrir stækkuna og til lengri tíma litið. Það hefur okkur tekist,“ sagði Arnar Már þá og vísaði til þess að áttatíu prósent ef fjármagninu kæmi frá breskum sjóði og fimmtungur frá íslandi, þar á meðal Íslenskum verðbréfum.

Engu að síður hafa forsvarsmenn Play nýtt síðustu vikur í að funda með fjárfestum og boðuðu þeir til að mynda forsvarsfólk íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja á fund sinn í byrjun síðustu viku.

Burtséð frá fjármögnunni var ljóst að tímaramminn sem forsvarsmenn Play gáfu sér var þröngur enda stefnt að jómfrúarferð nú um áramót. Um það sagði norskur flugsérfræðingur, í viðtali við Túrista, að vænlegra og áhættuminna væri að hefja flugreksturinn í vor. Þá eru fleiri eru á ferðinni og eins gefst þá lengri tími til að selja í fyrstu ferðirnar. Flugfélög eru líka almennt rekin í mínus á fyrsta ársfjórðungi.

Það hlé sem segja má á gert hafi verið á starfsemi Play eftir blaðamannafundinn í Perlunni verður því eitthvað lengra en gera mátti ráð fyrir.