Reyna að hafa hraðar hendur við sameininguna

Nú liggur fyrir að Samkeppniseftirlitið heimilar samruna tveggja af stærstu ferðaþjónustufyrirtækjum landsins. Stjórnarformaður Grayline segir það hafa tekið eftirlitið ótrúlega langan tíma að komast að þessari niðurstöðu.

Frá rútustæðunum fyrir framan komusal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Mynd: Túristi

Um mitt síðasta sumar sendi forsvarsfólk ferðaþjónustufyrirtækjanna Allrahanda Grayline og Reykjavík Sigthseeing greinargerð til Samkeppniseftirlitsins um fyrirhugaða sameiningu fyrirtækjanna. Í gær, rúmum fimm mánuðum síðar, gaf eftirlitið grænt ljós á það ferli.

„Þessi niðurstaða kom ekki á óvart en það tók Samkeppniseftirlitið ótrúlega langan tíma að komast að þessari niðurstöðu. Nú fer í hönd vinna við áræðanleikakannarnir og önnur úrvinnsla hjá þessum fyrirtækjum en fram til þessa hafa félögin ekki mátt skipta með sér upplýsingum eða öðrum gögnum sem varðar rekstur þeirra. Allt mun þetta taka einhver tíma en við reynum að hraða þessu eins og frekast er unnt,“ segir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Allrahanda Grayline, í svari til Túrista.

Bæði Reykjavik Sightseeing og Gray Line bjóða upp á reglulegar sætaferðir milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarinnar. Eftir útboð Isavia, á aðstöðu fyrir rútufyrirtæki fyrir framan Leifsstöð í hitti fyrra, þá tók Reykjavik Sightseeing við stæðunum sem rútur Grayline höfðu haft árin á undan. Auk þessara tveggja fyrirtækja þá sinnir Flugrútan, á vegum Kynnisferða, líka áætlunarferðum milli Reykjavíkur og flugvallarins.