SAS áfram í fluggír

Verkföll, veikir gjaldmiðlar og hækkandi rekstrarkostnaður skýra að mestu minni hagnað af rekstri SAS á nýloknu rekstrarári. Framhaldið er þó áfram bjart.

Rickard Gustafson, forstjóri SAS. Mynd: SAS

Ársuppgjör skandinavíska flugfélagsins SAS var birt nú í morgun en reikningsár félagsins hefst í byrjun nóvember og líkur í enda október. Félagið var rekið með myndarlegum hagnaði á því síðasta en núna var búist við nokkru minni afgangi og þá aðallega vegna þess hve vikulangt verkfall flugmanna félagsins reyndist dýrt.

Nú liggur aftur á móti fyrir að hagnaður á nýloknu rekstrarári nam rétt tæpum 800 milljónum sænskra króna sem jafngildir um 10 milljörðum íslenskra króna. Í fyrra var hagnaðurinn rúmlega tvöfalt hærri eða um 2 milljarðar sænskra króna. Forstjóri SAS gerir ráð fyrir því að hagnaður á næsta ári verði nokkru hærri en í ár. Í ljósi þess hve illa gekk hjá SAS fyrir ekki svo mörgum árum síðan má segja að umbreytingin sé veruleg þó hagnaðartölurnar séu ennþá ekki ýkja háar.

Norrænir greinendur eru sammála um að batnandi hagur SAS skýrist að miklu leyti að þeirri vörn sem Norwegian er í enda eru þessi tvö félög í mikilli samkeppni í flugi til og frá Skandinavíu. Hjá Norwegian hefur niðurskurðarhnífurinn nefnilega verið á lofti síðustu misseri og félagið skorið niður fjölda flugleiða. Þar með minnkar sætaframboðið og fargjöldin hækka.

Til marks um það þá hækkaði meðalfargjaldið hjá Norwegian um 12 prósent í nóvember en aftur á móti fækkaði farþegunum um 21 prósent.

Af SAS er það annars að frétta að félagið er að taka á móti fleiri nýjum flugvélum frá Airbus, bæði þotur sem nýtast í flug innan Evrópu en einnig til Ameríku og Asíu.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista