SAS áfram í fluggír

Verkföll, veikir gjaldmiðlar og hækkandi rekstrarkostnaður skýra að mestu minni hagnað af rekstri SAS á nýloknu rekstrarári. Framhaldið er þó áfram bjart.

Rickard Gustafson, forstjóri SAS. Mynd: SAS

Ársupp­gjör skandi­nav­íska flug­fé­lagsins SAS var birt nú í morgun en reikn­ingsár félagsins hefst í byrjun nóvember og líkur í enda október. Félagið var rekið með mynd­ar­legum hagnaði á því síðasta en núna var búist við nokkru minni afgangi og þá aðal­lega vegna þess hve viku­langt verk­fall flug­manna félagsins reyndist dýrt.

Nú liggur aftur á móti fyrir að hagn­aður á nýloknu rekstr­arári nam rétt tæpum 800 millj­ónum sænskra króna sem jafn­gildir um 10 millj­örðum íslenskra króna. Í fyrra var hagn­að­urinn rúmlega tvöfalt hærri eða um 2 millj­arðar sænskra króna. Forstjóri SAS gerir ráð fyrir því að hagn­aður á næsta ári verði nokkru hærri en í ár. Í ljósi þess hve illa gekk hjá SAS fyrir ekki svo mörgum árum síðan má segja að umbreyt­ingin sé veruleg þó hagn­að­ar­töl­urnar séu ennþá ekki ýkja háar.

Norrænir grein­endur eru sammála um að batn­andi hagur SAS skýrist að miklu leyti að þeirri vörn sem Norwegian er í enda eru þessi tvö félög í mikilli samkeppni í flugi til og frá Skandi­navíu. Hjá Norwegian hefur niður­skurð­ar­hníf­urinn nefni­lega verið á lofti síðustu misseri og félagið skorið niður fjölda flug­leiða. Þar með minnkar sætafram­boðið og fargjöldin hækka.

Til marks um það þá hækkaði meðal­far­gjaldið hjá Norwegian um 12 prósent í nóvember en aftur á móti fækkaði farþeg­unum um 21 prósent.

Af SAS er það annars að frétta að félagið er að taka á móti fleiri nýjum flug­vélum frá Airbus, bæði þotur sem nýtast í flug innan Evrópu en einnig til Ameríku og Asíu.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista