Síðustu sætin til Kana­ríeyja fyrir jólin eru dýr

Jólaferðir ferðaskrifstofanna til Tenerife og Kanarí eru uppseldar en ennþá eru laus sæti í þotunum sem þangað fljúga fyrir hátíðarnar.

Við sundlaugabakka á Tenerife. Mynd: Ferðamálaráð Spánar

Nú rúmum tveimur vikum fyrir jól þá kostar flug­sæti í þotum Norwegian, sem fljúga til Tenerife dagana fyrir jól, rétt um 135 þúsund krónur. Aftur á móti er tíu sinnum ódýrara fyrir íbúa Tenerife að fljúga til Íslands þessa daga.

Pakka­ferðir ferða­skrif­stof­anna til spænsku eyjunnar eru hins vegar uppseldar enda löng hefð fyrir jóla­ferðum Íslend­inga til Kana­ríeyja. Flug til Las Palmas á Gran Canaria kostar það sama og til Tenerife en mun ódýrara er með Norwegian til Alicante fyrir jólin.

Að það skuli ennþá vera laus sæti til Tenerife og Gran Canaria fyrir jólin segir sitt um hið mikla framboð sem er á ferðum til eyjanna um þessar mundir. Vana­lega eru jóla- og áramóta­ferð­irnar þangað frá Kefla­vík­ur­flug­velli nefni­lega uppseldar með löngum fyrir­vara. Nú í vetur hefur Norwegian flogið til Las Palmas og Tenerife alla daga vikunnar og auk þess bjóða stærstu ferða­skrif­stof­unar; Heims­ferðir, Úrval-Útsýn og Vita upp á tíðar ferðir til eyjanna.

Ekki er ljóst hvernig úrvalið verður næsta vetur því ennþá hefur Norwegian ekki hafið sölu á flugi fyrir næsta vetur. Það á þó ekki bara við sólarflug frá Íslandi því félagið er ekki heldur byrjað að selja flug til Kana­ríeyja frá höfuð­borgum hinna Norð­ur­land­anna fyrir jólin 2020.