Stjórnendur Ryanair draga úr væntingum

Óvissan varðandi Boeing MAX þoturnar er ástæða þess að farþegaspá Ryanair hefur verið lækkuð. Flugfélagið ætlar jafnframt að loka tveimur af starfsstöðvum sínum vegna stöðunnar.

Mynd: Ryanair

Forsvarsfólk Ryanair, stærsta lággjaldaflugfélags Evrópu, hafði gert ráð fyrir að næsta sumar yrðu tuttugu Boeing MAX þotur í flota félagsins. Það ríkir hins vegar óvissa um hvenær kyrrsetningu á þessum flugvélum verður aflétt. Af þeim sökum gaf Ryanair það út í dag að ný farþegaspá geir ráð fyrir 156 milljónum farþega á næsta reikningsári. Það er fækkun um eina milljón farþega.

Til viðbótar ætlar Ryanair að hætta að gera út frá Skavsta flugvelli við Stokkhólm í Svíþjóð og Nürnberg í Þýskalandi. Í dag er félagið með starfsemi á 86 mismunandi flugvöllum í Evrópu og Norður-Afríku.

Ryanair hefur pantað samtals 210 Boeing 737 MAX flugvélar en í dag notar félagið eingöngu eldri gerðir af Boeing 737 þotum.