Stóraukin sókn í skíðferðir til Sviss

Það styttist í fyrstu brottfarirnar á skíðastaðina á meginlandi Evrópu og í Norður-Ameríku.

Frá Andermatt í Sviss. Mynd: GB-ferðir

„Salan er mjög góð í ár. Helstu breytingarnar á milli ára er stóraukin sala til Sviss. Það breytti öllu að Icelandair hóf beint flug til Zürich yfir vetrartímann. Við höfum lagt mikla vinnu í að byggja upp vöruframboð okkar í Sviss og erum við að bjóða upp á tvö frábær skíðasvæði, Andermatt og Engelberg. Þau eru ekki nema í 90 mínútna akstursfjarlægð frá Zürich,“ segir Jóhann Pétur Guðjónsson, hjá GB-ferðum, aðspurður um eftirspurn eftir skíðaferðum í vetur.

GB-ferðir hafa líka lengi haft á boðstólum skíðaferðir til Austurríkis en einnig til Bandríkjanna og Kanada. Hann segist þó finna fyrir miklu meiri áhuga á skíðferðum til Evrópu núna í samanburði við síðustu tvö ár. „Ég tel að sú þróun muni halda áfram. Við erum mjög bjartsýn á framtíðina og það er ekkert lát á ferðagleði Íslendinga.“

Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval-Útsýn, segir söluna þar á bæ ganga ágætlega og ekki sé sjáanlegur neinn munur á sölunni fyrir komandi skíðavertíð í samanburði við þá síðustu. Hún bendir jafnframt á að enn eru á boðstólum sæti til Madonna á Ítalíu í janúar á sérkjörum.

Auk GB-ferða og Úrval-Útsýnar þá er ferðaskrifstofan Vita stórtæk í sölu á skíðaferðum til Ítalíu og Austurríkis. Þeir sem vilja halda á ótroðnari slóðir geta kíkt á pakkaferðir Tripical til Andorra.