Stundvísara Icelandair

Níu af hverjum tíu ferðum Icelandair voru á réttum tíma í nóvember. Leita þarf nokkur ár aftur í tímann til að finna álíka stundvísi á þessum tíma árs.

Mynd: Icelandair

Hinn hraði vöxtur WOW air og aukin umsvif Icelandair reyndu verulega á starfsemi Keflavíkurflugvallar og sérstaklega á árunum 2015 til 2018. Uppbygging flughafnarinnar og fjölgun útistæða hafði þannig sín áhrif og seinkanir í ferðum WOW frá gátu riðlað áætlun Icelandair og öfugt.

Nú hefur umferðin um Keflavíkuflugvöll hins vegar minnkað umtalsvert og þotur Icelandair komust á áfangastað samkvæmt áætlun í níutíu prósent tilvika í nóvember. Hlutfallið var 76 prósent í nóvember í fyrra samkvæmt því sem segir í tilkynningu.

„Stundvísi er einn mikilvægasti þáttur í starfsemi flugfélaga og hefur víðtæk áhrif, ekki síst á upplifun og ánægju farþega. Áhrifin koma jafnframt víða fram í starfseminni, svo sem á ýmsa kostnaðarliði, vinnuálag og þar með starfsánægju. Það þarf margt að ganga upp til að árangur náist en við höfum bætt stundvísi félagsins umtalsvert á undanförnum mánuðum með samstilltu átaki starfsmanna, þrátt fyrir álag og breytingar á leiðakerfinu vegna kyrrsetningar MAX vélanna,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í tilkynningu.

Um nokkurra ára skeið fylgdist Túristi grannt með stundvísi flugfélaga á Keflavíkurflugvelli og birti svokallaðar stundvísitölur mánaðarlega. Og í nóvember árið 2012, fyrsta starfsár WOW air, þá mældist stundvísi Icelandair einmitt álíka góð og hún var í síðasta mánuði. Úttektir fluggreinandans OAG sýna hins vegar að hún hefur verið nokkur lakari í nóvember síðustu ár.

Og samkvæmt mælingum OAG þá komu vélar Icelandair á áfangastað á réttum tíma í 88 prósent tilkvika í nóvember. Þar með er félagið númer 34 á listanum yfir stundvísustu flugfélög Evrópu, Afríku og Miðausturlanda í nóvember.