Það var ekki ætlunin að bjóða upp á Íslandsflug allt árið

Stjórnendur stærsta flugfélags í heimi ætla að halda sig við sumarflug til Keflavíkurflugvallar. Vetrarferðum var bætt við fyrir misskilning.

Mynd: Amnerican Airlines

Síðustu tvö sumur hefur American Airlines boðið upp á áætlunarflug hingað til lands frá Dallas í Texas. Það næsta færir félagið Íslandsflugið hins vegar til Philadelphia. Sú borg er jafnframt hluti af leiðakerfi Icelandair og það var Dallas reyndar líka. Þar laut íslenska félagið reyndar í gras fyrir því bandaríska ef svo má segja.

Áætlunarflug Icelandair til Philadelphia hefur takmarkast við sumartímann en aftur á móti var útlit var fyrir að American Airlines ætlaði sér að fljúga hingað frá borginni allt árið um kring. Ekki aðeins frá vori og fram á haust eins og áður hafði verið kynnt.

Aðspurð um þetta óvænta vetrarflug þá segir talskona American Airlines að sú viðbót skrifist á mistök. Ekki hafi verið ætlunin að hefja sölu á vetrarferðum til Íslands og þær hafi nú verið teknar út.

Það er því ljóst að áfram mun áætlunarflug þessa stærsta flugfélagsins í heimi, í farþegum talið, takmarkast við háannatímann í ferðaþjónustunni líkt og raunin er með ferðir United Airlines og Delta. Það síðastnefnda hefur reyndar haldið úti ferðum hingað allt árið um kring en þó ekki núna í vetur.

FINNST ÞÉR EITTHVAÐ SPUNNIÐ Í TÚRISTA?