Þriðjungs samdráttur í Íslandsflugi frá Bretlandi

Í ársbyrjun 2018 var flogið hingað reglulega frá þrettán breskum flugvöllum. Þeim hefur fækkað jafnt og þétt síðan þá og nú standa eftir sex.

Gatwick er ekki lengur sú helsta samgöngumiðstöðin fyrir Íslandsferðir frá Bretlandi. Mynd: Gatwick Airport

Engin þjóð sækir jafn mikið í vetrarferðir til Íslands og Bretar gera. Síðastliðinn vetur stóðu Bretarnir undir fjórðungi af heildarfjölda ferðamanna hér á landi og bara í febrúar sl. komu hingað nokkru fleiri breskir túristar en samanlagt yfir sumarmánuðina þrjá.

Óhætt er að segja að aðdráttarafl íslenska vetrarins hjá Bretum skrifast að töluverðu leyti á tíðar og ódýrar flugsamgöngur milli landanna tveggja. Því áður en lággjaldaflugfélagið easyJet hóf Íslandsflug árið 2012 þá komu álíka margir Bretar hingað yfir sumarið eins og í skammdeginu.

Fram til ársins 2016 bætti easyJet verulega í flugið hingað frá Bretlandi og það gerðu líka Icelandair og WOW air. British Airways tók líka upp þráðinn í flugi til Íslands og hóf að fljúga hingað frá bæði Heathrow og London City. Norwegian spreytti sig líka og Flybe en bæði gáfust upp. Nýjasta viðbótin er áætlunarflug Wizz Air frá London Luton.

Framboðið jókst því gríðarlega og á tímabili voru áætlunarferðirnar til London rúmlega áttatíu í viku. Núna er samrátturinn þónokkur, bæði í tíðni ferða og fjölda áfangastaða. Og allt frá því að rekstur WOW air stöðvaðist í lok mars þá hefur flugfarþegum milli Íslands og Bretlands fækkað um nærri þriðjung. Fór fjöldinn úr 716 þúsundum niður í 483 þúsund þegar horft er til tímabilsins apríl til september í ár. Fyrstu níu mánuði ársins nemur samdrátturinn fjórðungi.

Þessir útreikningar byggja á tölum frá breskum flugmálayfirvöldum. Hvorki Isavia né Samgöngustofa birta sambærilegar upplýsingar og hefur Úrskurðarnefnd upplýsingamála gefið grænt ljós á þá starfshætti.

Eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan á fækkar farþegum á leið til og frá Íslandi langmest á Gatwick í London. Þar með er Heathrow á ný orðin helsta samgöngumiðstöðin fyrir Íslandsferðir frá Bretlandi en þaðan fljúga Icelandair og British Airways. Luton er svo í öðru sæti enda fljúga easyJet og Wizz air til Keflavíkurflugvallar allt árið um kring frá þeim flugvelli.

Hafa ber í huga að stór hluti farþega Icelandair og WOW air frá Bretlandi voru og eru tengifarþegar á ferðalagi milli Bretlands og Norður-Ameríku. Og það eru ekki aðeins Bretar sem hafa nýtt sér hinar tíðu ferðir til Íslands frá breskum flughöfnum. Þannig hefur það komið fram í viðtölum Túrista við forsvarsmenn British Airways að Kínverjar skipuðu flest sæti í þotum félagsins sem flugu hingað til lands á sínum tíma.

Líkt og kom fram í greiningu Túrista í síðustu viku þá er útlit fyrir að áætlunarflugferðum milli Íslands og Bretlands fækki um rúman fjórðung á fyrstu þremur mánuðum næsta árs. Þeir sem styrkja útgáfu Túrista með reglulegum hætti fengu senda ítarlegri greiningu á þeim breytingum.

Nú getur þú tekið þátt í að styrkja og efla útgáfu Túrista