Rúmlega fimmtungi færri áætlunarflug í ársbyrjun

Fyrstu þrjá mánuðina í fyrra var WOW air ennþá í loftinu. Við brotthvarf félagsins dró úr umferð um Keflavíkurflugvöll og það stefnir í samdrátt á fyrsta fjórðungi næsta ár. Hann er þó mjög mismunandi eftir löndum og borgum. Ennþá er óljóst með áform Play og hins nýja WOW.

Brottfararfarþegar á Keflavíkurflugvelli. Mynd: Isavia

Í haust hefur samdrátturinn í áætlunarflugi frá Keflavíkurflugvelli numið rúmum fjórðungi en fjöldi erlendra ferðamanna hefur dregist minna saman eða um fimmtung. Þannig hefur takturinn verið síðan WOW air fór í þrot, hlutfallslega fækkar ferðafólki minna en flugferðunum til og frá landinu.

Ef þróunin verður sú sama fyrstu þrjá mánuði næsta árs þá má gera ráð fyrir mismikilli niðursveiflu í fjölda ferðamanna eftir áramót, minnst í febrúar en mest í mars.

Á dagskrá Keflavíkurflugvallar fyrir febrúar er nefnilega gert ráð fyrir 48 brottförum á dag að jafnaði. Meðaltalið var 56 ferðir á sama tíma í ár samkvæmt talningum Túrista. Hlutfallslega nemur samdrátturinn rétt um þrettán af hundraði. Í mars stefnir aftur á móti í um 28 prósent samdrátt í fjölda brottfara og þar með gæti ferðamannahópurinn í þeim mánuði dregist saman um allt að fimmtung miðað við reynslu síðustu mánaða. Janúar liggur svo mitt á milli eða með 22 prósent færri áætlunarferðir.

Páskar á næsta ári eru í seinni hluta apríl en þeir voru um miðjan þann mánuð í fyrra. Ferðagleðin sem fylgir frídögunum í kringum þá hátíð hefur því ekki áhrif á fyrsta fjórðung næsta árs.

Hafa verður í huga að forsvarsfólk bæði Play og WOW air gera ráð fyrir að hefja áætlunarflug í byrjun næsta árs. Gangi það eftir hefur það umtalsverð áhrif. Þó ber að hafa í huga að sala á farmiðum er ekki hafin og nú er mjög stutt í áramót. Þar með má reikna með að þotur félaganna verði frekar þunnskipaðar fari þær í loftið.

Þó áætlunarferðunum frá Keflavíkurflugvelli fækki um fimmtung á fyrsta fjórðungi næsta árs þá kemur samdrátturinn mismunandi fram þegar flugumferðin er greind eftir löndum. Þannig hefur bæst í flugið til Kaupmannahafnar, Helsinki og Póllands. Fækkunin er töluverð í flugi hingað frá Norður-Ameríku eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan sem sýnir breytingar á flugi til þeirra tíu landa sem oftast er flogið til.

Ítarlegri samantekt um breytt flugframboð á fyrsta ársfjórðungi næsta árs, eftir borgum og löndum, verður á morgun send þeim sem styrkja útgáfu Túrista með mánaðarlegum framlögum. Hægt er að bætast í þann hóp hér.

Uppfært: Eftir birtingu greinarinnar kom í ljós að tékkneska flugfélagið Czech Airlines hafði tekið út 80 brottfarir héðan til Kaupmannahafnar í janúar, febrúar og mars. Þar með er samdrátturinn meiri en upphaflega var reiknað með.