Vilja að fremsta farrýmið heyri sögunni til

Wizz Air hefur nú hleypt af stokkunum einskonar herferð sem beint er að þeim sem ferðast um á viðskiptafarrýmum innan Evrópu.

Skjámynd: Wizz Air

Eftir fall WOW air þá varð ungverska lággjaldaflugfélagið Wizz Air næst umsvifamesta flugfélagið á Keflavíkurflugvelli. Um borð í þotum félagsins er ekkert viðskiptafarrými og ekki heldur stærri sæti fyrir þá sem vilja borga meira líkt og WOW air gerði út á. Í staðinn sitja allir jafn þröngt ef svo má segja.

Og nýverið kallaði forstjóri Wizz Air eftir banni við viðskiptafarrýmum í öllum flugferðum undir fimm klukkutímum. Að mati forstjórans er það nefnilega ekki réttlætanlegt út frá umhverfissjónarmiðum að fljúga um háloftin í stóru sæti með mikið fótapláss. Losun gróðurhúsalofttegunda á hvern farþega á fremsta farrými er nefnilega nokkru meiri en hjá þeim sem sitja í venjulegum sætum. Þetta sést til að mynda skýrt í kolefnisjöfnunar reiknivél Icelandair þar sem niðurstaðan er sú að kolefnisfótspor Saga Class farþega er mun stærra.

Barátta Wizz fyrir banni á fyrsta klassa farrýmum takmarkast þó ekki bara við yfirlýsingar forstjórans því nú hefur fliugfélagið birt myndband þar sem deilt á keppinauta félagsins sem ennþá gera út á stór og breið sæti í fremstu röðum.