20 fjölförnustu flugvellirnir í Evrópu

Sem fyrr er það Heathrow flugvöllur í London sem flestir farþegar fljúga til og frá. Hástökkvari síðasta árs er aftur á móti flugvöllurinn í Vínarborg en þar bættist einmitt við heilsársflug til Íslands síðastliðinn vetur.

Flugvél að koma inn til lendingar á Heathrow flugvelli London. Mynd: Heathrow Airport

Þó farþegafjöldinn á Heathrow flugvelli í London hafi verið nær óbreyttur í fyrra þá breytir það engu um stöðu hans á toppi listans yfir fjölförnustu flughafnir Evrópu. Alls áttu 80 milljónir farþega leið um flugstöðvar Heathrow á nýliðnu ári sem er nokkru meira en á Charles de Gaulle í París sem er í öðru sæti með rétt rúmlega 76 milljónir farþega. Schiphol í Amsterdam kemur þar á eftir og svo Frankfurt. Í fimmta sæti listans yfir stærstu flughafnir Evrópu eru flugvellirnir Istanbul í Tyrklandi.

Samkvæmt samantekt danska netmiðilsins Checkin þá er Vínarflugvöllur hástökkvari ársins í Evrópu. Þar fjölgaði flugfarþegum um sautján prósent. Skýringin liggur helst í því að flugfélagið Laudamotion er komið á fleygiferð eftir að Ryanair tók þar við stjórnartaumunum en einnig fluttu easyJet og Wizz Air hluta starfsemi sinni þangað. Það síðastnefnda flýgur einmitt þaðan til Íslands allt árið um kring.

Í heildina er flogið frá Keflavíkurflugvelli til sextán af þeim tuttugu flugvöllum í Evrópu sem komast á topplistann í ár. Þeir sem út af standa eru flugvellirnir í Istanbúl, Róm, Lissabon og Palma á Mallorca.

Stærstu flugvellir Evrópu árið 2019 samkvæmt úttekt Checkin:

 1. Heathrow í London – 80 milljónir
 2. Charles de Gaulle í París – 76,2 milljónir
 3. Schiphol í Amsterdam – 71,7 milljónir
 4. Frankfurt flugvöllur – 70,6 milljónir
 5. Istanbul&Ataturk – 68,6 milljónir
 6. Barajas í Madríd – 61,7 milljónir
 7. El-Prat í Barcelona – 52,7 milljónir
 8. Sheremetyevo í Moskvu – 49,4 milljónir
 9. Munchen flugvöllur – 47,9 milljónir
 10. Gatwick í London – 46,5 milljónir
 11. Fiumicino í Róm – 43,5 milljónir
 12. Dublin flugvöllur – 32,9 milljónir
 13. Orly í París – 31,9 milljónir
 14. Vínarflugvöllur – 31,7 milljónir
 15. Zurich flugvöllur – 31,5 milljónir
 16. Lissabon flugvöllur – 31,2 milljónir
 17. Kaupmannahafnarflugvöllur – 30,3 milljónir
 18. Palma de Mallorca – 29,7 milljónir
 19. Manchester flugvöllur – 29,4 milljónir
 20. Malpensa í Mílanó – 28,8 milljónir