2,3 milljarðar króna fyrir hverja MAX þotu

Boeing flugvélaframleiðandinn hefur samið um skaðabætur við nokkur flugfélög sem eiga MAX þotur. Bæturnar til Turkish Airlines nema rúmum tveimur milljörðum á hverja vél en félagið hafði fengið afhentar 12 MAX þotur. Tvöfalt fleiri en Icelandair.

MAX þotur merktar Turkish Airlines og Icelandair við verksmiðjur Boeing. MYND: SOUNDERBRUCE / CREATIVECOMMONS 4.0)

Hvorki stjórnendur Icelandair eða annarra flugfélaga hafa gefið upp hversu háar skaðabætur Boeing hefur greitt þeim vegna kyrrsetningar MAX þotanna sem nú hefur varað í nærri tíu mánuði. Icelandair tilkynnti fyrst um svona samkomulag í september og aftur í tengslum við uppgjör félagsins fyrir þriðja ársfjórðung. Svo mikil leynd ríkir um upphæðirnar sem um ræðir að bæturnar voru meðal annars færðar inn sem farþegatekjur og svo til lækkunar á kostnaði vegna leigu á þeim flugvélum sem Icelandair nýtti voru í sumar til að fylla skarð MAX þotanna.

Southwest flugfélagið upplýsti ekki heldur hversu háar skaðabæturnar voru frá Boeing og það gerðu ekki heldur stjórnendur Turkish Airlines sem nýverið gengu frá samkomulagi við Boeing. Aftur á móti herma heimildir tyrkneska fjölmiðilins Hurriyet, sem Reuters vitnar í, að Boeing hafi greitt tyrkneska flugfélaginu 225 milljónir dollara í bætur. Það jafngildir um 27,6 milljörðum króna. Tveir þriðju hlutar upphæðarinnar munu vera hreinar skaðabætur á meðan þriðjungur er í formi niðurgreiðslu á varahlutum og þjálfun áhafna.

Þetta jafngildir bótum upp á 2,3 milljarða króna á hverja flugvéla en Turkish Airlines hafði fengið afhentar tólf MAX þotur þegar kyrrsetningin var sett á um miðjan mars í fyrra. Icelandair hafði aftur á tekið í notkun helmingi færri flugvélar af þessari gerð. Og ef bótagreiðslur Icelandair hafa verið álíka og hjá tyrkneska flugfélaginu þá hefur Icelandair fengið bætur upp á um 14 milljarða króna frá Boeing í fyrra. Þar af um níu milljarða í fébætur.

Þó ber að hafa í huga að þegar Icelandair tilkynnti um sína samninga við Boeing þá voru bundnar vonir við að vélarnar færu í loftið nú í ársbyrjun. Núna reiknar Icelandair ekki með MAX þotunum í flota sinn fyrr en í maí og þar með er kostnaðurinn vegna kyrrsetningarinnar í dag ennþá hærr en hann var í haust. Fleiri þættir spila svo inní eins og t.d. heildarfjöldi þeirra MAX þota sem viðkomandi flugfélög hafa pantað o.s.frv.

Hversu hratt það mun ganga að koma MAX þotunum í loftið á ný ræðst þó ekki aðeins af betrumbótum á hugbúnaði flugvélanna. Nú munu flugmálayfirvöld vestanhafs, samkvæmt New York Times, einnig vera að kanna hvort rafmagnskaplar þotanna liggi of þétt saman. Mun það mál vera til skoðunar þessa dagana og ef rétt reynist þá gæti það seinkað komu vélanna ennþá frekar.