2,3 millj­arðar króna fyrir hverja MAX þotu

Boeing flugvélaframleiðandinn hefur samið um skaðabætur við nokkur flugfélög sem eiga MAX þotur. Bæturnar til Turkish Airlines nema rúmum tveimur milljörðum á hverja vél en félagið hafði fengið afhentar 12 MAX þotur. Tvöfalt fleiri en Icelandair.

MAX þotur merktar Turkish Airlines og Icelandair við verksmiðjur Boeing. MYND: SOUNDERBRUCE / CREATIVECOMMONS 4.0)

Hvorki stjórn­endur Icelandair eða annarra flug­fé­laga hafa gefið upp hversu háar skaða­bætur Boeing hefur greitt þeim vegna kyrr­setn­ingar MAX þotanna sem nú hefur varað í nærri tíu mánuði. Icelandair tilkynnti fyrst um svona samkomulag í sept­ember og aftur í tengslum við uppgjör félagsins fyrir þriðja ársfjórðung. Svo mikil leynd ríkir um upphæð­irnar sem um ræðir að bæturnar voru meðal annars færðar inn sem farþega­tekjur og svo til lækk­unar á kostnaði vegna leigu á þeim flug­vélum sem Icelandair nýtti voru í sumar til að fylla skarð MAX þotanna.

Sout­hwest flug­fé­lagið upplýsti ekki heldur hversu háar skaða­bæt­urnar voru frá Boeing og það gerðu ekki heldur stjórn­endur Turkish Airlines sem nýverið gengu frá samkomu­lagi við Boeing. Aftur á móti herma heim­ildir tyrk­neska fjöl­mið­ilins Hurriyet, sem Reuters vitnar í, að Boeing hafi greitt tyrk­neska flug­fé­laginu 225 millj­ónir dollara í bætur. Það jafn­gildir um 27,6 millj­örðum króna. Tveir þriðju hlutar upphæð­ar­innar munu vera hreinar skaða­bætur á meðan þriðj­ungur er í formi niður­greiðslu á vara­hlutum og þjálfun áhafna.

Þetta jafn­gildir bótum upp á 2,3 millj­arða króna á hverja flug­véla en Turkish Airlines hafði fengið afhentar tólf MAX þotur þegar kyrr­setn­ingin var sett á um miðjan mars í fyrra. Icelandair hafði aftur á tekið í notkun helm­ingi færri flug­vélar af þessari gerð. Og ef bóta­greiðslur Icelandair hafa verið álíka og hjá tyrk­neska flug­fé­laginu þá hefur Icelandair fengið bætur upp á um 14 millj­arða króna frá Boeing í fyrra. Þar af um níu millj­arða í fébætur.

Þó ber að hafa í huga að þegar Icelandair tilkynnti um sína samn­inga við Boeing þá voru bundnar vonir við að vélarnar færu í loftið nú í ársbyrjun. Núna reiknar Icelandair ekki með MAX þotunum í flota sinn fyrr en í maí og þar með er kostn­að­urinn vegna kyrr­setn­ing­ar­innar í dag ennþá hærr en hann var í haust. Fleiri þættir spila svo inní eins og t.d. heild­ar­fjöldi þeirra MAX þota sem viðkom­andi flug­félög hafa pantað o.s.frv.

Hversu hratt það mun ganga að koma MAX þotunum í loftið á ný ræðst þó ekki aðeins af betr­um­bótum á hugbúnaði flug­vél­anna. Nú munu flug­mála­yf­ir­völd vest­an­hafs, samkvæmt New York Times, einnig vera að kanna hvort rafmagn­skaplar þotanna liggi of þétt saman. Mun það mál vera til skoð­unar þessa dagana og ef rétt reynist þá gæti það seinkað komu vélanna ennþá frekar.