48 þúsund færri farþegar milli Kaupmannahafnar og Íslands

Icelandair var einn af hástökkvurunum á Kaupmannahafnarflugvelli í fyrra. Engu að síður fækkaði farþegum í Íslandsflugi frá þessari fjölförnustu flughöfn Norðurlanda.

Frá Kaupmannahafnarflugvelli MYND: CPH.DK

Það voru sautján prósent fleiri farþegar sem nýttu sér ferðir Icelandair til og frá flugvellinum við Kastrup í fyrra. Þessi viðbót kom Icelandair upp í níunda sætið á lista danska flugvallarins yfir umsvifamestu flugfélögin þar á bæ líkt og hér var greint frá í síðustu viku. Í heildina flutti íslenska flugfélagið nærri 402 þúsund farþega til og frá Kaupmannahöfn í fyrra eða 58 þúsund fleiri en árið 2018.

Icelandair er þó ekki eitt um að fljúga reglulega milli Keflavíkurflugvallar og Kaupmannahafnar því félagið hefur um árabil átt þar í samkeppni á þessari flugleið við bæði SAS og WOW air. Í lok síðasta árs bættust svo við ferðir frá Czech Airlines en félagið lagði þær hins vegar fljótt niður.

Í dag stendur þá aðeins SAS eftir í samkeppninni við Icelandair og hefur skandinavíska félagið bætt við ferðum til Íslands. Það munaði engu að síður töluvert um brotthvarf WOW air þegar litið er til fjölda þeirra sem nýtti sér Íslandsflug frá dönsku höfuðborginni í fyrra. Þannig fækkaði farþegum WOW air á Kastrup á síðasta ári um 137 þúsund en rekstur félagsins stöðvaðist í lok mars í fyrra. Icelandair fyllti hluta af því því gati og SAS og Czech Airlines sömuleiðis. Etir stendur að 48 þúsund færri farþegar flugu milli Íslands og Kaupmannahafnar í fyrra samkvæmt þeim gögnum sem danski flugvöllurinn hefur látið Túrista í té.

Isavia vill ekki veita sambærileg gögn samkvæmt svari fyrirtækisins við fyrirspurn Túrista í síðustu viku. Og úrskurðarnefnd upplýsingamála hefur veitt sína heimild fyrir þeirri leynd sem hér á landi ríkir um tölfræði tengda farþegaflugi.

Eigin talningar Túrista sýna samt að Kaupmannahafnarflugvöllur er sú erlenda flughöfn sem oftast er flogið til frá Keflavíkurflugvelli. Ferðirnar til London eru þó alla jafna nokkru fleiri en þoturnar sem þangað fljúga taka ekki allar stefnuna á sama flugvöllinn þar í borg. Í dag er t.a.m. flogið héðan til Heathrow, Gatwick og Luton en áður var jafnframt boðið upp á ferðir hingað til Stansted og City flugvallar í London.

NÚ GETUR ÞÚ STUTT ÚTGÁFU TÚRISTA