95 þúsund færri um innanlandsflugvellina

Niðursveiflan í innanlandsfluginu var umtalsverð í fyrra.

Frá Akureyrarflugvelli. Mynd: Isavia

Það voru um 695 þúsund farþegar sem flugu til og frá innanlandsflugvöllum landsins í fyrra. Það er tólf prósent samdráttur frá fyrra ári og reyndar var fjöldinn í fyrra sá minnsti þau átta ár sem tölur Isavia ná yfir. Hafa ber í huga að farþegar í millilandaflugi, einkaflugi og útsýnisflugi eru meðtaldir.

Hversu margir það voru sem nýttu sér aðeins innanlandsflugið liggur fyrir í vor þegar Isavia birtir sína árlegu samantekt um flugumferð hér á landi. Miðað við reynslu síðustu ára þá stendur áætlunarflugið innanlands undir um 90 til 98 prósent af umferðinni um flugvelli landsins þegar Keflavíkurflugvöllur er frátalinn.

Eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan þá var samdrátturinn í fyrra minnstur á Akureyrarflugvelli. Þar vegur líklega þungt millilandaflug til bæjarins frá Bretlandi og Hollandi. Ferðirnar frá Bretlandi verða þó ekki á boðstólum í ár þar sem ferðaskrifstofan sem fyrir þeim stóð varð gjaldþrota í fyrra.