Áfram margir á ferðinni milli Íslands og Írlands

Icelandair hefur fjölgað ferðum sínum til Dublin eftir fall WOW. Farþegum hefur því fækkað minna en annars hefði mátt gera ráð fyrir.

Frá Dublin. Mynd: ICELANDAIR

Icelandair fór jómfrúarferð sína til Dublin í byrjun maí í hittifyrra en þá hafði WOW air stundað flug þangað að kappi í töluverðan tíma. Flugvöllur borgarinnar kom meira að segja til greina sem önnur heimahöfn WOW air þegar stærð Keflavíkurflugvallar þótti takmarka stækkunaráform eiganda félagsins.

Ekkert varð af þeim áætlunum en íslensku flugfélögin tvö kepptust engu að síður um farþega á leiðinni milli Dublin og Keflavíkurflugvallar allt þangað til að WOW air varð gjaldþrota í lok mars í fyrra.

Eftir brotthvarf helsta keppinautarins bætti Icelandair við ferðum til írsku höfuðborgarinnar og þannig fjölgaði brottförunum þangað í júlí sl. úr 23 í 41 samkvæmt talningu Túrista. Og þá sex mánuði sem liðu frá falli WOW þá flutti Icelandair 74.500 farþega til og frá Dublin. Það eru tíu þúsund fleiri farþegar en WOW flaug með á þessari flugleið á sama tímabili, apríl til september, árið 2017. Hafa ber í huga að farþegar eru taldir bæði þegar þeir fljúga til og frá Dublin.

Aftur á móti nam fjöldinn rúmlega 134 þúsundum þessa sex mánuði árið 2018 þegar bæði félög sinntu flugleiðinni samkvæmt tölum frá írskum flugmálayfirvöldum.

Þess má geta að hér á landi eru sambærilegar farþegatölur eru ekki opinberar og í fyrra komst úrskurðarnefnd um upplýsingamál að þeirri niðurstöðu að Isavia þyrfti ekki að veita þær.

Hér má sjá hvernig farþegafjöldinn á flugleiðinni milli Íslands og Dublin hefur þróast fyrstu níu mánuði hvers árs.


NÚ GETUR ÞÚ STYRKT ÚTGÁFU TÚRISTA