Auka hlut sinn í ferðaþjónustu

Framtakssjóðurinn Freyja hefur keypt 16 prósenta hlut í ferðaþjónustufyrirtækinu Arctic Adventures. Fyrir eiga sjóðir í eigu bankans hlut í Íslandshótelum.

Mynd: Arctic Adventures

Rétt fyrir jól var tilkynnt um samkomulag Arctic Adventures og framtakssjóðsins Icelandic Tourism Fund I, sem Landsbréf stýra, um sameiningu Arctic Adventures og Into the Glacier. Með samrunanum verður til stórfyrirtæki í ferðatengdri afþreyingu í öllum landshlutum og um 400 starfsmenn samkvæmt því sem sagði í tilkynningu.

Fréttablaðið greindi svo frá því fyrr í morgun að framtaksstjóðurinn Freyja, sem Kvika rekur, hefði keypt sextán prósent hlut í Arctic Adventures.

Á heimasíðu Kviku kemur fram að bankinn reki tvo aðra svokallaða framtakssjóði og annar þeirra, Edda, eigi stóran hlut í Íslandshótelum sem er stærsta hótelfyrirtæki landsins. Þá fjárfestingu má reyndar rekja nokkur ár aftur í tímann en með kaupum dagsins þá eykst sem sagt hlutur Kviku í íslenskri ferðaþjónustu.

Líkt og kom fram í lok síðasta árs er stefnt að því að skrá Arctic Adventures í kauphöll innan tveggja ára. Áður hafði komið fram að sala á fyrirtækinu til erlends stórfyrirtækis í ferðaþjónustu hefði verið á lokametrunum en dottið upp fyrir eftir fall Thomas Cook ferðaskipuleggjandans.