Bestu flugfélögin á Keflavíkurflugvelli að mati farþega

Þegar horft er til þeirra einkunna sem farþegar hafa gefið flugfélögunum sem halda úti Íslandsflugi í sumar þá ber færeyska flugfélagið Atlantic Airways af.

Atlantic Airways flýgur reglulega héðan til höfuðstaðs Færeyja. Ekkert flugfélag á Keflavíkurflugvelli fær eins háa einkunn hjá notendum Tripadvisor og Skytrax. Mynd: Atlantic Airways

Árlega veita netsíðurnar Tripadvisor og Skytrax verðlaun til þeirra flugfélaga sem besta umsögn hafa fengið meðal notenda vefjanna. Og til marks um vegsaukann þá gerir markaðsfólks flugfélaga vanalega töluvert úr því þegar félögin þeirra fá þessar viðurkenningar.

Ferðavefurinn Tripadvisor er þekktari af þessum tveimur og um árabil hafa flugfarþegar verið hvattir til að skrifa umsagnir um flugfélög á vefinn og gefa þeim einkunnir á bilinu 1 til 5. Nú er að finna mörg þúsund dóma um hvert og eitt flugfélag á Tripadvisor og til að mynda hátt í 8 þúsund um Icelandair. Er flugfélagið í dag með 3,5 af fimm mögulegum í meðaleinkunn.

Skytrax vefurinn er ekki eins vinsæll og Tripadvisor en engu að síður horfir ferðageirinn til þess sem þar er skrifað og dæmt. Einkunnagjöf Skytrax er á skalanum einn til tíu og er Icelandair með fimm í einkunn og byggir hún á tæplega sex hundrað umsögnum.

Íslenska flugfélagið er þó fjarri því eitt um flug til og frá landinu og hér fyrir neðan má sjá einkunnir allra þeirra flugfélaga sem munu halda úti áætlunarflugi til og frá Keflavíkurflugvelli í ár. Til að reikna út meðaltal þá er stjörnugjöf Tripadvisor varpað á sama skala og hjá Skytrax og svo tekið einfalt meðaltal.

Eins og sjá má þá ber Atlantic Airways höfuð og herðar yfir önnur félög en þetta færeyska flugfélag flýgur hingað frá Þórshöfn. Spænska lággjaldaflugfélagið Vueling er svo í neðsta sæti. Þess ber þó að geta að fjöldi dóma um Atlantic Airways er nokkru lægri en þekkist hjá hinum flugfélögunum sem er í takt við umsvif félagsins á heimsvísu. Þannig eru rétt um tvö hundruð umsagnir um Atlantic Airways hjá Tripadvisor.