Bestu flug­fé­lögin á Kefla­vík­ur­flug­velli að mati farþega

Þegar horft er til þeirra einkunna sem farþegar hafa gefið flugfélögunum sem halda úti Íslandsflugi í sumar þá ber færeyska flugfélagið Atlantic Airways af.

Atlantic Airways flýgur reglulega héðan til höfuðstaðs Færeyja. Ekkert flugfélag á Keflavíkurflugvelli fær eins háa einkunn hjá notendum Tripadvisor og Skytrax. Mynd: Atlantic Airways

Árlega veita netsíð­urnar Tripa­dvisor og Skytrax verð­laun til þeirra flug­fé­laga sem besta umsögn hafa fengið meðal notenda vefj­anna. Og til marks um vegs­aukann þá gerir mark­aðs­fólks flug­fé­laga vana­lega tölu­vert úr því þegar félögin þeirra fá þessar viður­kenn­ingar.

Ferða­vef­urinn Tripa­dvisor er þekktari af þessum tveimur og um árabil hafa flug­far­þegar verið hvattir til að skrifa umsagnir um flug­félög á vefinn og gefa þeim einkunnir á bilinu 1 til 5. Nú er að finna mörg þúsund dóma um hvert og eitt flug­félag á Tripa­dvisor og til að mynda hátt í 8 þúsund um Icelandair. Er flug­fé­lagið í dag með 3,5 af fimm mögu­legum í meðal­ein­kunn.

Skytrax vefurinn er ekki eins vinsæll og Tripa­dvisor en engu að síður horfir ferða­geirinn til þess sem þar er skrifað og dæmt. Einkunna­gjöf Skytrax er á skal­anum einn til tíu og er Icelandair með fimm í einkunn og byggir hún á tæplega sex hundrað umsögnum.

Íslenska flug­fé­lagið er þó fjarri því eitt um flug til og frá landinu og hér fyrir neðan má sjá einkunnir allra þeirra flug­fé­laga sem munu halda úti áætl­un­ar­flugi til og frá Kefla­vík­ur­flug­velli í ár. Til að reikna út meðaltal þá er stjörnu­gjöf Tripa­dvisor varpað á sama skala og hjá Skytrax og svo tekið einfalt meðaltal.

Eins og sjá má þá ber Atlantic Airways höfuð og herðar yfir önnur félög en þetta færeyska flug­félag flýgur hingað frá Þórs­höfn. Spænska lággjalda­flug­fé­lagið Vueling er svo í neðsta sæti. Þess ber þó að geta að fjöldi dóma um Atlantic Airways er nokkru lægri en þekkist hjá hinum flug­fé­lög­unum sem er í takt við umsvif félagsins á heimsvísu. Þannig eru rétt um tvö hundruð umsagnir um Atlantic Airways hjá Tripa­dvisor.