Breytingar í yfirstjórn Keahótelanna

Skipulagsbreytingar hjá þriðja stærsta hótelfyrirtæki landsins.

Snorri Pétur Eggertsson. Mynd: Keahótelin

Snorri Pétur Eggertsson hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs Keahótelanna. Hann mun jafnframt leiða tekjustýringu hótelanna samkvæmt því sem segir í tilkynningu.

Vegna skipulagsbreytinga hjá Keahótelunum þá hefur Kristján Daníelsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri rekstrar, látið að störfum. Það staðfestir Páll L. Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Keahótelanna, í svari til Túrista.

Snorri Pétur starfaði um fimm ára skeið hjá WOW air, meðal annars sem framkvæmdastjóri tekjustýringar. Hann var jafnframt einn af lykilstjórnendum Sterling flugfélagsins og hefur verið viðloðandi flugrekstur í 15 ár.

Í tilkynningu kemur fram að sölu- og markaðsstarf Keahótela hafi að mestu verið flutt frá Akureyri til Reykjavíkur og nýr markaðsstjóri og verkefnastjóri ráðnir á skrifstofu Keahótela í Reykjavík. „Fyrirhugað er að efla teymið þar enn frekar í náinni framtíð,“ segir þar jafnframt.