Brottförunum fækkaði um fimmtán á dag

Áfram minnkar umferðin um Keflavíkurflugvöll en sum félög hafa þó bætt í Íslandsflugið. Mesta viðbótin er á vegum Wizz Air.

Mynd: Isavia

Það voru farnar rétt tæplega fjórtán hundruð áætlunarferðir frá Keflavíkurflugvelli í nýliðndum mánuði. Það er samdráttur um tuttugu og fimm prósent frá því í desember árið 2018 samkvæmt talningum Túrista. Sem fyrr liggur megin skýringin í þessari breytingu í falli WOW air enda stóð það félag fyrir 28 af hverjum hundrað flugferðum frá Keflavíkurflugvelli í desember í hittifyrra.

Hlutdeild Icelandair hefur á sama tíma gjörbreyst eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan. Nú er vægi Icelandair komið upp í um sextíu prósent á ný þó félagið hafið staðið fyrir nánast jafn mörgum ferðum síðustu tvo desember mánuði.

Wizz Air var aftur á móti það félag sem bætti mestu við Íslandsflugið í jólamánuðinum. Nú stóð félagið fyrir 127 brottförum frá Keflavíkurflugvelli en þær voru 77 í desember 2018.

SAS, Norwegian og Transavia juku einnig umsvif sín hér á landi en aftur á móti fækkaði ferðunum hingað á vegum British Airways og easyJet. Einnig munar um að nú í vetur býður bandaríska flugfélagið Delta ekki upp á áætlunarferðir hingað.