Ekki fleiri MAX þotur framleiddar í bili

Nú koma ekki lengur nýjar Boeing MAX þotur út úr verksmiðju flugvélaframleiðandans í Renton í Washington fylki.

Starfsmenn Boeing fögnuðu þegar fyrsta Boeing MAX 10 þotan kom út úr verksmiðjunni í Renton. Nú hefur framleiðslan verið stöðvuð. Mynd: Boeing

Allt frá því að Boeing MAX þotur voru kyrrsettar á heimsvísu um miðjan mars í fyrra, í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa, þá hafa stjórnendur Boeing reiknað með að þoturnar komist á loft á ný hvað úr hverju. Þeir hafa því haldið framleiðslu þotanna áfram og framleitt um 42 þotur í hverjum mánuði allt frá því flugbannið var sett á fyrir rúmum tíu mánuðum síðan.

Eftir að yfirmaður flugmálayfirvalda vestanhafs gaf það út í desember síðastliðnum að það yrði áfram bið eftir því að kyrrsetningunni yrði aflétt þá játuðu stjórnendur Boeing sig sigraða og tilkynntu að framleiðslu MAX þotanna yrði hætt tímabundið.

Ekki kom fram nákvæmlega hvenær það yrði en samkvæmt frétt CNN hefur færibandið í verksmiðju Boeing í Renton í Washington fylki nú verið stöðvað. Það er því ekki von á nýjum MAX þotum þaðan á næstunni en þess háttar flugvélar standa nú í hundraða tali á flugbrautum í Washington og Texas fylki.

Boeing sagði ekki upp neinum starfsmönnum vegna ástandsins og segir í frétt CNN að skýringin á því liggi í lágu atvinnuleysi vestanhafs. Boeing má nefnilega ekki við því að starfsfólkið ráði sig til vinnu annars staðar þegar MAX vélarnar fá að taka á loft á ný. Og miðað við breyttar flugáætlanir stóru flugfélaganna í Bandaríkjunum verður það fyrst í byrjun júní. Flugáætlun Icelandair gerir ráð fyrir þotunum í rekstur í maí.

Þeim fjölgar nú sem taka undir fyrri yfirlýsingar Donald J. Trump Bandaríkjaforseta um að Boeing ætti að endurnefna MAX þoturnar. Stjórnendur Ryanair hafa þannig unnið að breytingum á merkingum sinna þota fyrir og í vikunni lét Steven Udvar-Hazy, stjórnarformaður ALC flugvélaleigunnar, hafa það eftir sér að hann teldi nafngiftina ómögulega.

Þess má geta að Udvar-Hazy er sá sem leigði WOW air stóran hluta af Airbus þotum félagsins og meðal annars flugvélina sem Isavia kyrrsetti eftir fall íslenska flugfélagsins.

VILTU BÆTAST Í HÓP ÞEIRRA SEM STYÐUR VIÐ ÚTGÁFU TÚRISTA?