Ferða­manna­straum­urinn frá Banda­ríkj­unum reyndist íslensku flug­fé­lögum dýr

Fjöldi erlendra ferðamanna sem flaug frá Keflavíkurflugvelli í fyrra fór niður fyrir tvær milljónir í fyrra. Langmest munar um fækkun bandarískra ferðamanna en bæði íslensku flugfélögin fór illa út úr sókn inn á bandaríska markaðinn.

Mynd: Isavia

Erlendu ferða­fólki fækkaði um fjórtán af hundraði í fyrra og fór fjöldinn niður í rétt tæpar tvær millj­ónir. Til saman­burðar voru ferða­menn hér um 2,2 millj­ónir 2017 og rúmar 2,3 millj­ónir árið 2018 samkvæmt taln­ingum Ferða­mála­stofu. Sjötíu prósent af samdrætt­inum í fyrra má rekja til fækk­unar banda­rískra ferða­manna en þeir eru eftir sem áður lang­fjöl­menn­asta þjóðin í hópi ferða­manna hér á landi. Vægi þeirra af heild­ar­fjöld­anum var 23,4 prósent í fyrra en var 30 prósent árið áður.

Þessar svipt­ingar má að miklu leyti rekja til veru­legs samdráttar í flug­um­ferð milli Íslands og Banda­ríkj­anna enda reyndist hin mikla sókn íslensku flug­fé­lag­anna inn á banda­ríska mark­aðinn báðum félögum dýrkeypt. Það kom til að mynda berlega í ljós þegar félögin stokkuðu upp leiða­kerfi sín því þá duttu út mun fleiri banda­rískar en evrópskar borgir.

Þannig felldu félögin, bæði eða í sitt­hvoru lagi, niður ferðir til Dallas, Cleve­land, Tampa, Kansas City, St Louis og Cinc­innati og því til viðbótar hætti Icelandair flugi til Baltimore og San Francisco eftir að hafa skorað WOW air á hólm í þessum tveimur borgum. Og ekkert flug­félag tók við Íslands­flugi WOW air frá Los Angeles, Pitts­burgh, Detroit eða Baltimore eftir að flug­fé­lagið fór í þrot í lok mars í fyrra. Þó ber að hafa í huga að ástandið á MAX þotum Icelandair kann að skýra hluta af þessum breyt­ingum.

Það munar einnig um að nú í vetur býður Delta Air Lines ekki upp á ferðir til Íslands frá New York en félagið hafði haldið úti ferðum hingað allt árið um kring í nokkur ár.