Ferðamannastraumurinn frá Bandaríkjunum reyndist íslensku flugfélögum dýr

Fjöldi erlendra ferðamanna sem flaug frá Keflavíkurflugvelli í fyrra fór niður fyrir tvær milljónir í fyrra. Langmest munar um fækkun bandarískra ferðamanna en bæði íslensku flugfélögin fór illa út úr sókn inn á bandaríska markaðinn.

Mynd: Isavia

Erlendu ferðafólki fækkaði um fjórtán af hundraði í fyrra og fór fjöldinn niður í rétt tæpar tvær milljónir. Til samanburðar voru ferðamenn hér um 2,2 milljónir 2017 og rúmar 2,3 milljónir árið 2018 samkvæmt talningum Ferðamálastofu. Sjötíu prósent af samdrættinum í fyrra má rekja til fækkunar bandarískra ferðamanna en þeir eru eftir sem áður langfjölmennasta þjóðin í hópi ferðamanna hér á landi. Vægi þeirra af heildarfjöldanum var 23,4 prósent í fyrra en var 30 prósent árið áður.

Þessar sviptingar má að miklu leyti rekja til verulegs samdráttar í flugumferð milli Íslands og Bandaríkjanna enda reyndist hin mikla sókn íslensku flugfélaganna inn á bandaríska markaðinn báðum félögum dýrkeypt. Það kom til að mynda berlega í ljós þegar félögin stokkuðu upp leiðakerfi sín því þá duttu út mun fleiri bandarískar en evrópskar borgir.

Þannig felldu félögin, bæði eða í sitthvoru lagi, niður ferðir til Dallas, Cleveland, Tampa, Kansas City, St Louis og Cincinnati og því til viðbótar hætti Icelandair flugi til Baltimore og San Francisco eftir að hafa skorað WOW air á hólm í þessum tveimur borgum. Og ekkert flugfélag tók við Íslandsflugi WOW air frá Los Angeles, Pittsburgh, Detroit eða Baltimore eftir að flugfélagið fór í þrot í lok mars í fyrra. Þó ber að hafa í huga að ástandið á MAX þotum Icelandair kann að skýra hluta af þessum breytingum.

Það munar einnig um að nú í vetur býður Delta Air Lines ekki upp á ferðir til Íslands frá New York en félagið hafði haldið úti ferðum hingað allt árið um kring í nokkur ár.