Ferðaskrifstofa Andra Más Ingólfssonar opnar í febrúar

Aventura er heiti nýrrar ferðaskrifstofu sem stofnandi Heimsferða og Primera Travel samsteypunnar opnar í næsta mánuði.

Heimasíða Aventura Holidays. Skjámynd

Það var um nýliðin áramót sem Andri Már Ingólfssonar, fyrrum eigandi Primera Travel samsteypunnar, auglýsti eftir starfsfólki á nýja ferðaskrifstofu sem hlotið hefur nafnið Aventura Holidays. Í atvinnuauglýsingu sagði að ferðaskrifstofan tæki til starfa í janúar og nú er heimasíða Aventura komin í loftið. Þar segir reyndar að sala á ferðum hefjist fyrst í febrúar en ekki kemur fram hvaða dag.

Einnig segir ekkert um hvers konar ferðum Aventura mun sérhæfa sig í eða til hvaða áfangastaða verður haldið. Á heimasíðunni segir einfaldlega að þarna verði „vinsælustu áfangastaðirnir“ í boði og hægt verði að velja á milli ferða hjá 600 flugfélögum og 2 milljónir hótelherbergja verði á boðstólum. Þess má geta að innan IATA, alþjóðasamtaka flugfélaga, eru 290 flugfélög á skrá.

Af þessu mikla úrvali að dæma þá virðist sem leitarvél Aventura muni tengja saman flugsæti og hótelherbergi á saman hátt og fjöldamargar bókunarsíður gera út um heim allan.

Nú eru sjö mánuðir liðnir frá því að Arion banki tók yfir þær sjö norrænu ferðaskrifstofur sem áður tilheyrðu Primera Travel samsteypu Andra Más. Ein af þeim er Heimsferðir sem lengi hefur verið ein allra umsvifamesta ferðaskrifstofa landsins í sölu á utanlandsferðum.