Ferðaþjónustan skilar áfram miklu hærri gjaldeyristekjum en sjávarútvegur og ál

Þó ferðafólki hér á landi hafi fækkað þá skilar ferðaþjónustan um fjórum af hverjum tíu krónum af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins. Þetta kemur fram í nýrri þjóðhagsspá Íslandsbanka.

Ferðamenn í Reykjavík. Mynd: Gunnlaugur Rögnvaldsson

Tekjur af erlendum ferðamönnum námu 382 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum síðasta árs. Það svarar til ríflega 8 prósent samdráttar í krónum talið á milli ára. Á sama tímabili skilaði sjávarútvegur 192 milljörðum kr. tekjum og álútflutningur 161 milljarði kr. samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Íslandsbanka. Ferðaþjónustan vegur þar með þyngra en sjávarútvegur og álútflutningur samanlagt þrátt fyrir að erlendum ferðamönnum á Íslandi hafi fækkað um fjórtán prósent í fyrra.

Hingað komu tæplega tvær milljónir túrista í fyrra og var árið þriðja stærsta ferðamannaárið frá upphafi á eftir árunum 2018 og 2017. Í skýrslu Íslandsbanka segir að  gert sé ráð fyrir sambærilegum fjölda erlendra ferðamanna í ár og byggir það á nýlegri spá Isavia.

Árin þar á eftir gera sérfræðingar Íslandsbanka ráð fyrir að hópur ferðafólks hér á landi stækki um þrjá af hundraði sem mun vera í takt við spár um fjölgun ferðamanna á heimsvísu.