Fleiri flugfélög í íslenska greiðslumiðlun

Bætt hefur verið úr þeim skorti sem var orðinn í skráningu erlendra flugfélaga í íslenskt uppgjörskerfi á vegum IATA.

Mynd: Nils Nedel

Sérstök greiðslumiðlunarþjónusta á vegum IATA, alþjóðasamtaka flugfélaga, gerir ferðaskrifstofum og öðrum söluaðilum flugferða kleift að gefa út flugmiða í gegnum sjálfvirkt kerfi sem heldur utan um útgáfu reikninga og greiðslu á flugferðum. Þetta hafa íslenskir söluaðilar nýtt sér til að gefa út flugmiða hjá flugfélögum víðsvegar um heiminn en kerfið er byggt þannig upp að hvert land er með sitt eigið uppgjörskerfi.

Skortur á flugfélögum í íslenska hlutanum var þó orðinn töluverður sem kallaði á tímafreka vinnu við útgáfu flugmiða og aukin kostnað fyrir ferðaskrifstofurnar þar sem sækja þurfi þjónustu í önnur kerfi erlendis. Á þessu vöktu Samtök ferðaþjónustunnar athygli árið 2017 og í samstarfi við IATA voru mögulegar lausnir voru ræddar samkvæmt því sem segir í tilkynningu frá SAF.

Þar kemur fram að í byrjun árs 2018 hafi að lokum verið ákveðið að flugfélög sem voru og eru tengd kerfinu í Danmörku ættu þess kost að tengjast því íslenska án aukakostnaðar. „Frá því ákvörðunin var tekin hefur flugfélögum í íslenska kerfinu fjölgað um tæpan helming og eru nú 74 talsins,“ segir í tilkynningu.

Þess má geta að 27. janúar nk. stendur IATA fyrir fundi í samstarfi við Icelandair um stöðu flugsins í dag.