Fljúga héðan til Birmingham og Manchester næsta haust

Áfram bætir breska ferðaskrifstofan Jet2CityBreaks við ferðum til Íslands og núna geta farþegar hér á landi nýtt sér ferðirnar að hluta.

Þota Jet2 á Keflavíkurflugvelli. Mynd: Isavia

Stjórnendur flugfélagsins Jet2.com og ferðaskrifstofunnar Jet2CityBreaks, hafa ákveðið að fjölga ferðunum til Íslands næsta vetur. Hingað til hafa ferðir þessara systurfélaga hingað til lands aðeins verið fyrir farþega sem hefja ferðalagið í Bretlandi. Núna er aftur á móti hægt að bóka flug með félaginu héðan til Birmingham og Manchester en aðeins í október og nóvember. Ódýrustu miðarnir kosta rétt rúmar fimm þúsund krónur.

Frá Keflavíkurflugvelli fljúga þotur easyJet og Icelandair allt árið um kring til Manchester en áætlunarflug til Birmingham hefur ekki verið í boði héðan síðan Icelandair hætti flugi til borgarinnar fyrir tveimur árum síðan. Þar á undan spreytti Flybe sig á ferðum hingað frá þessari næst fjölmennustu borg Bretlands. Einnig stóð til að Primera Air myndi fljúga milli Birmingham og Íslands en félagið varð gjaldþrota áður en jómfrúarferðin var farin.

Auk þess að fljúga hingað til lands með breska ferðamenn frá Birmingham og Manchester þá býður Jet2.com upp á Íslandsferðir frá sjö öðrum breskum flugvöllum. Þær reisur virðast að langmestu leyti vera hugsaðar fyrir þá sem hefja ferðalagið í Bretlandi.