Fram­lengja samstarfið við JetBlue

Áfram geta farþegar Icelandair keypt tengiflug með JetBlue innan Norður- og Suður-Ameríku.

Airbus þotur JetBlue. Mynd: JetBlue

Icelandair hefur endur­nýjað samning við banda­ríska flug­fé­lagið JetBlue um sammerkt flug félag­anna. Í tilkynn­ingu kemur fram að um sé að ræða samstarfs­samning sem feli það í sér að bæði flug­fé­lögin geta selt og gefið út flug­miða hvort hjá öðru. „Þannig geta viðskipta­vinir Icelandair keypt einn farseðil frá Íslandi til fjölda áfanga­staða JetBlue í Banda­ríkj­unum, karab­íska hafinu, Mið- og Suður-Ameríku. Að sama skapi munu viðskipta­vinir JetBlue geta keypt miða til Íslands og fjölda áfanga­staða Icelandair í Evrópu,” segir í tilkynn­ingu.

Samn­ingur Icelandair og JetBlue, sem fyrst tók gildi árið 2011, hefur nú verið endur­nýj­aður til ársins 2024. Þá hafa viðskipta­vinir félag­anna frá árinu 2017 átt þess kost að safna vild­arpunktum hjá báðum félögum.

„Samstarfið við JetBlue er liður í því að bjóða fjöl­breyttari þjón­ustu og auka þægindi fyrir viðskipta­vini okkar. Með því að tengja leiða­kerfin okkar saman getum við boðið viðskipta­vinum okkar aukna valmögu­leika þegar kemur að teng­ingum í Banda­ríkj­unum, karab­íska hafinu, sem og Mið- og Suður-Ameríku. Á móti geta viðskipta­vinir JetBlue nýtt sér teng­ingar Icelandair til Íslands og áfanga­staða okkar í Evrópu með einföldum hætti,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

Í tilkynn­ingu er jafn­framt haft eftir Robin Hayes, forstjóri JetBlue, að samstarfið við Icelandair styrki leiða­kerfi félag­anna beggja vegna Atlants­hafsins og bætir aðgengi viðskipta­vina JetBlue að Íslandi og öðrum áfanga­stöðum í Evrópu. „Með framúrsk­ar­andi þjón­ustu og hagstæðum fargjöldum, mun samstarf okkar áfram stuðla að aukinni eftir­spurn eftir flugi yfir Norður-Atlants­hafið í aðdrag­anda að áætluðu flugi JetBlue á þessum markaði 2021.” En JetBlue hefur boðað Evrópuflug á næsta ári en ekki liggur fyrir til hvaða evrópsku borga flug­fé­lagið mun fljúga frá starfs­stöðvum sínum í Boston og New York.

Þess má geta að Ben Bald­anza, fyrrum stjórn­ar­maður WOW air, situr í stjórn JetBlue.