Gera núna fyrst ráð fyrir MAX þotum í sumarbyrjun

Flugáætlun American Airlines gerir nú fyrst ráð fyrir Boeing MAX 737 þotunum þegar háannatíminn í fluginu er hafinn.

Mynd: American Airlines

Í samráði við flugmálayfirvöld vestanhafs hafa stjórnendur American Airlines gefið út að þeir reikni ekki með að hefja farþegaflug með MAX þotunum fyrr en í fyrsta lagi 4. júní næstkomandi. Þetta er nokkru seinna en áður hafði verið gert ráð fyrir í áætlun þessa stærsta flugfélags í heimi.

Í tilkynningu frá American Airlines kemur fram að í kjölfar þess að kyrrsetningu þotanna verður aflétt þá muni flugfélagið prufukeyra þotunnar með starfsfólk og boðsgesti um borð.

Forsvarsfólk Icelandair hefur áður gefið út að þar á bæ er búist við MAX þotunum í maí en nákvæmari dagsetning kemur ekki fram í kauphallartilkynningu félagsins. Ekki er ólíklegt að félagið þurfi að seinka þessu enn frekar nú í kjölfar ákvörðuna American Airlines. Það hefur nefnilega komið fram að evrópska flugmálayfirvöld gætu beðið aðeins lengur en þau bandarísku með að veita MAX þotunum flugheimild á ný.

Þess má geta að American Airlines hefur flutt Íslandsflug sitt frá bandarísku borginni Dallas og yfir til Philadelphia. Þar skorar félagið Icelandair á hólm en það íslenska hefur boðið upp á ferðir milli Philadelphia og Keflavíkurflugvallar síðustu tvö sumur.