Hafa ekki rætt samstarf milli WOW og Play

Á næstu vikum ættu þotur hins nýja WOW air að hefja sig til lofts á ný. Megináherslan verður á fraktflug en frá fyrstu ferð verða farþegar um borð. Lítið hefur farið fyrir forsvarsmönnum Play en samstarf milli þeirra og Michele Roosevelt Edw­ards hefur ekki verið rætt.

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com

Flugrekst­ur hins nýja WOW air mun hefjast á kom­andi vik­um og ætlunin er að flugfélagið tengi saman lönd og heims­álf­ur. Þetta er meðal þess sem kemur fram í færslu á Linkedin síðu Michele Roosevelt Edw­ards, forsvarskonu endurreisnar WOW air. Hún heit­ir jafnframt viðskipta­vin­um flugfélagsins ör­yggi, þæg­ind­um og sann­gjörn­um far­gjöld­um þegar þar að kemur.

Ekkert kemur fram þar um hvert flugfélagið ætlar að fljúga eða hvenær miðasala hefst. Gunnar Steinn Pálsson, talsmaður WOW air, segist í samtali við Túrista ekki vilja tjá sig um einstaka þætti í undirbúningsferlinu.

Hann ítrekar það sem áður hefur komið fram að í upphafi verði megináherlsa á fraktflutninga á meðan verið er að prufukeyra reksturinn en frá fyrsta degi verða jafnframt farþegar um borð. Áður hefur komið fram að fyrsta flugleiðin verði milli Keflavíkurflugvallar og Dulles flugvallar í Washington borg.

WOW air er þó ekki eina flugfélagið sem stefnir á hefja áætlunarflug héðan í ár því ennþá mun vera unnið að því stofnun Play flugfélagsins. Aðspurður um hvort til greina komi að flugfélögin tvö hafi með sér samstarf eða sameinist þá segir Gunnar Steinn að þær hugmyndir hafi ekki skotið upp kollinum. „Ennþá síður hafa einhver samskipti verið milli Play og okkar.“

NÚ GETUR STUTT VIÐ ÚTGÁFU TÚRISTA