Hafa ekki rætt samstarf milli WOW og Play

Á næstu vikum ættu þotur hins nýja WOW air að hefja sig til lofts á ný. Megináherslan verður á fraktflug en frá fyrstu ferð verða farþegar um borð. Lítið hefur farið fyrir forsvarsmönnum Play en samstarf milli þeirra og Michele Roosevelt Edw­ards hefur ekki verið rætt.

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com

Flugrekst­ur hins nýja WOW air mun hefjast á kom­andi vik­um og ætlunin er að flug­fé­lagið tengi saman lönd og heims­álf­ur. Þetta er meðal þess sem kemur fram í færslu á Linkedin síðu Michele Roosevelt Edw­ards, forsvars­konu endur­reisnar WOW air. Hún heit­ir jafn­framt viðskipta­vin­um flug­fé­lagsins ör­yggi, þæg­ind­um og sann­gjörn­um far­gjöld­um þegar þar að kemur.

Ekkert kemur fram þar um hvert flug­fé­lagið ætlar að fljúga eða hvenær miða­sala hefst. Gunnar Steinn Pálsson, tals­maður WOW air, segist í samtali við Túrista ekki vilja tjá sig um einstaka þætti í undir­bún­ings­ferlinu.

Hann ítrekar það sem áður hefur komið fram að í upphafi verði megin­á­herlsa á frakt­flutn­inga á meðan verið er að prufu­keyra rekst­urinn en frá fyrsta degi verða jafn­framt farþegar um borð. Áður hefur komið fram að fyrsta flug­leiðin verði milli Kefla­vík­ur­flug­vallar og Dulles flug­vallar í Washington borg.

WOW air er þó ekki eina flug­fé­lagið sem stefnir á hefja áætl­un­ar­flug héðan í ár því ennþá mun vera unnið að því stofnun Play flug­fé­lagsins. Aðspurður um hvort til greina komi að flug­fé­lögin tvö hafi með sér samstarf eða sameinist þá segir Gunnar Steinn að þær hugmyndir hafi ekki skotið upp koll­inum. „Ennþá síður hafa einhver samskipti verið milli Play og okkar.”

NÚ GETUR STUTT VIÐ ÚTGÁFU TÚRISTA