Herða reglur um handfarangur

Ekkert flugfélag flytur fleiri milli Íslands og Spánar en Norwegian gerir. Og nú styttist í að borga þurfi sérstaklega undir hefðbundnar handfarangurstöskur hjá félaginu.

Um borð í þotu Norwegian. Mynd: Norwegian

Eftir fall WOW air hefur Wizz Air verið eina flugfélagið á Keflavíkurflugvelli sem takmarkar stærð handfarangurs við töskur sem komast undir sætin. Þeir sem vilja taka með sér hefðbundnar handfarangurstöskur hjá Wizz Air verða að borga aukalega fyrir þær. Íslenska lággjaldaflugfélagið hafði sömu reglur og nú ætlar Norwegian að fylgja þessu fordæmi en þó aðeins hjá þeim farþegum sem bóka svokallaða LowFare miða.

Nýju reglurnar hafa ekki verið opinberaðar en samkvæmt danska ferðaritinu Check-in stendur til að kynna þær fljótlega. Þeir sem bóka far með Norwegian til og frá Íslandi á næstunni ættu því að komast hjá því að greiða sérstaklega undir hefðbundinn handfarangur en ekki liggur fyrir hversu hátt það gjald verður í framtíðinni og hvenær það verður sett á.

Talsmaður flugfélagsins segir í viðtali við Check-in að tilgangurinn með nýju reglunum sé að tryggja farþegunum eins þægilegt ferðalag og hægt er. Hann fer þó ekki nánar út í það hvernig sú jákvæða breyting næst fram með hertari reglum.

Það er dylst þó engum að með aukinni áherslu flugfélaga á fargjöld án farangursheimildar þá fjölgar þeim sem aðeins ferðast með handfarangur. Þar með verða flugvélarnar léttari og eldnseytis þörfin minnkar og mengunin líka. Aftur á móti fjölgar töskunum sem settar eru í hólfin fyrir ofan sætin.

Ef fleiri flugfélög taka um hertari reglur um handfarangur gæti það svo orðið til þess að ennþá fleiri reyni að komast hjá því að ferðast með meira en sem aðeins kemst undir sætin. Það gæti þó orðið erfitt fyrir þá sem eru á leið í lengri ferðalög, t.d. þá sem fljúga með Norwegian frá Keflavíkurflugvelli til Barcelona, Alicante, Tenerife eða Las Palmas.

NÚ GETUR ÞÚ STUTT VIÐ ÚTGÁFU TÚRISTA