„Höfum ennþá fulla trú á ferðamannageiranum“

Það liðu rúm fjögur ár á milli þess sem framtakssjóðir í rekstri Kviku banka fjárfestu í íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum. Forstöðumaður sjóðanna segir að þar á bæ hafi verið gert ráð fyrir að hinn mikli vöxtur í ferðaþjónustunni myndi leita í ákveðið jafnvægi.

Eftir samruna Arctic Adventures og Into the Glacier hefur orðið til eitt stærsta fyrirtæki landsins í afþreyingu fyrir ferðafólk með starfsemi í öllum landshlutum. Myndir: Arctic Adventures

Framtakssjóðurinn Freyja, sem Kvika banki rekur, keypti í ársbyrjun nærri sextán prósenta hlut í Arctic Adventures, einu stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins. Nokkrum vikum áður hafði verið tilkynnt um samruna Arctic Adventures og Into the Glacier. Með þeirri sameiningu varð til eitt umsvifamesta fyrirtæki landsins í ferðatengdri afþreyingu og verður Freyja einn stærsti hluthafinn í fyrirtækinu.

Freyja er einn af þremur svokölluðum framtakssjóðum sem Kvika banki rekur. Hinir eru Edda og Auður og sá fyrrnefndi fjárfesti í Íslandshótelum, stærsta hótelfyrirtæki landsins, um mitt ár 2015. Þá stóð yfir mikið vaxtarskeið í íslenskri ferðaþjónustu en þrátt fyrir uppsveifluna þá fjárfestu sjóðirnar þrír ekki í öðrum íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum þar til nú í ársbyrjun þegar hluturinn í Arctic Adventures var keyptur að sögn Margit Robertet, forstöðumanns framtakssjóða Kviku banka.

„Við skoðum að sjálfsögðu fjöldann allan af fjárfestingartækifærum áður en við tökum ákvörðun um að fjárfesta og reynum að stíga varlega til jarðar,“ segir Margit um ástæður þess að ekki var fjárfest í íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum á árunum þegar ferðafólki hér á landi fjölgaði mjög ört.

Aðspurð um hvort þau hafi talið vöxtinn í greininni ósjálfbæran á þessum tímabili þá segir Margit svo ekki vera. „En auðvitað höfum við verið að gera ráð fyrir því síðustu misserin að þessi mikli vöxtur myndi leita í ákveðið jafnvægi. Við höfum ennþá fulla trú á ferðamannageiranum og sjáum áframhaldandi vöxt á heimsvísu.“

NÚ GETUR ÞÚ STUTT ÚTGÁFU TÚRISTA