Icelandair breytir reglum og gjöldum

Nú er ekki lengur hægt að breyta Economy Light farmiðum hjá Icelandir. Á móti kemur að breytingagjaldið á Economy Standard lækkar um helming. Sú lækkun stenst fyllilega verðsamanburð við það sem þekkist í flugi héðan vestur um haf en ekki í Evrópuflugi.

Mynd: Icelandair

Það eru rúm tvö ár liðin frá því að Icelandair hóf að selja farmiða án innritaðs farangurs, svokölluð Economy Light fargjöld. Þá fylgdi Icelandair fordæmi lággjaldaflugfélaganna sem lengi hafa rukkað aukalega fyrir farangur. Mörg hefðbundin flugfélög hafi farið sömu leið síðustu ár.

Allur gangur er á því hvort farþegar með þess háttar farmiða megi breyta ferðadögum eða jafnvel skipta um áfangastað. Reglurnar eru mismundandi eftir flugfélögum samkvæmt lauslegri athugun Túrista. Þannig eru breytingar leyfðar hjá British Airways og SAS en ekki hjá Lufthansa eða Finnair. Og nú bætist Icelandair í flokk með þeim síðarnefndu því handhafar Economy Light farmiða hjá flugfélaginu geta ekki gert fyrrnefndar breytingar.

Þessi sveigjanleiki er þó áfram fyrir hendi fyrir þá sem eru með farmiða í næst ódýrasta fargjaldaflokknum, Economy Standard. Gjaldið sem Icelandair rukkar fyrir breytingar á þeim farmiðum nemur 13 þúsund krónum ef ferðalagið hefst hér á landi. Verðmuninum á gamla og nýja fargjaldinu bætist svo við. Þetta gjald fyrir breytingar var nýverið lækkað um helming hjá Icelandair í ferðum til Evrópu og um sextíu prósent í Ameríkuflugi samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu.

Þrátt fyrir þessa lækkun þá er gjaldtakan fyrir breytingar á Economy Standard farmiðum nokkru hærri en þekkist á sambærilegum fargjöldum hjá hefðbundnum evrópskum flugfélögum sem fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli. Hjá British Airways er það um 11.700 kr. (85 evrur) á meðan gjald fyrir breytingar hjá Lufthansa, SAS og Finnair er um 9.600 kr. (70 evrur). Það er um fjórðungi lægra en hjá Icelandair. Farþegar þess íslenska, sem hefja ferðalagið annars staðar í Evrópu en á Keflavíkurflugvelli, borga minna fyrir breytingar á Economy Standard miðum eða um 10.300 kr. (75 evrur).

Verðsamanburðurinn lítur mun betur út fyrir Icelandair þegar kemur að flugi héðan til Bandaríkjanna og Kanada. Þá er gjaldið fyrir breytingar áfram 13 þúsund krónur hjá Icelandair sem er um þrisvar sinnum lægra en gjaldið sem bandarísku flugfélögin American Airlines, United og Delta taka fyrir breytingar á flugmiðum frá Íslandi til Bandaríkjanna.

„Við lækkun breytingagjalda hjá Icelandair lögðum við áherslu á að breytingarnar yrðu í samræmi við markmið okkar um að vera með sanngjarna og einfalda verðlagningu. Þá horfðum við til samkeppninnar, þess sem gengur og gerist í okkar bransa og eðli hinna ólíku markaða sem við störfum á. Hvað breytingagjöld á íslenska markaðinum varðar, ákváðum við að hafa eitt og sama breytingagjaldið fyrir allar ferðir, sem við teljum bæði sanngjarnt og skýrt fyrir okkar viðskiptavini,“ segir Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá Icelandair. Hún bætir því við að við verðlagninguna á Íslandi hafi líka verið tekið mið af gengi krónunnar.

Þess má geta að Icelandair og önnur evrópsk flugfélag rukka töluvert meira fyrir breytingar á flugmiðum sem gefnir eru út í Norður-Ameríku. Þá er gjaldið fyrir breytingar um 31 þúsund krónur (250 dollarar) hjá íslenska flugfélaginu og SAS rukkar þar 300 dollara (37 þúsund kr.) fyrir breytingar sem er fjórfalt hærra en félagið gerir í Evrópuflugi. 

EF ÞÉR FINNST EITTHVAÐ GAGN Í SKRIFUM TÚRISTA ÞÁ GETUR ÞÚ STUTT VIÐ ÖFLUGARI ÚTGÁFU MEÐ REGLULEGUM FRAMLÖGUM