Icelandair orðið níunda stærsta flug­fé­lagið í Kaup­manna­höfn

Umsvif Icelandair jukust verulega á flugvellinum við Kastrup í fyrra og félagið er þar með komið á inn á topp tíu lista flugvallarins.

Terminal 3 á Kaupmannahafnarflugvelli. Mynd: CPH

Allt árið um kring fljúga þotur Icelandair tvisvar til fimm sinnum á dag til Kaup­manna­hafnar og reglu­lega eru breið­þotur félagsins notaðar í þessar ferðir. Og til marks um mikil­vægi þess­arar flug­leiðar fyrir Icelandair þá lætur nærri að tíunda hver áætl­un­ar­ferð Icelandair sé til dönsku höfuð­borg­ar­innar á sumrin. Yfir vetr­ar­mán­uðina lækkar hlut­fallið.

Icelandair er þó ekki eitt um flugið til Kaup­manna­hafnar því þotur SAS fljúga þessa leið allt árið um kring og það gerði líka WOW air. Tékk­neska flug­fé­lagið Czech Airlines spreytti sig einnig á áætl­un­ar­flugi milli Íslands og Kaup­manna­hafnar í haust og byrjun vetrar.

Þrátt fyrir mikla samkeppni þá fjölgaði farþegum Icelandair til og frá Kastrup veru­lega í fyrra samkvæmt tölum sem Túristi óskaði eftir frá flug­mála­yf­ir­völdum í Kaup­manna­höfn. Þar kemur fram að Icelandair flutti nærri 402 þúsund farþegar til og frá þessari fjöl­förn­ustu flug­höfn Norð­ur­landa í fyrra. Það er aukning um 58 þúsund farþega eða nærri 17 prósent. Hafa ber í huga að árið 2018 fækkaði farþegum Icelandair þó frá árinu 2017 þegar þeir voru um 356 þúsund.

Á lista Kaup­manna­hafn­ar­flug­vallar yfir tuttugu umsvifa­mestu flug­fé­lögin þar á bæ færist Icelandair því úr fjór­tánda sætinu í það níunda. Hafa ber í huga að stór hluti þeira farþega sem nýta sér flug­ferðir íslenska flug­fé­lagsins til og frá dönsku höfuð­borg­inni eru tengifar­þegar, bæði íslenskir og erlendir.