Icelandair orðið níunda stærsta flugfélagið í Kaupmannahöfn

Umsvif Icelandair jukust verulega á flugvellinum við Kastrup í fyrra og félagið er þar með komið á inn á topp tíu lista flugvallarins.

Terminal 3 á Kaupmannahafnarflugvelli. Mynd: CPH

Allt árið um kring fljúga þotur Icelandair tvisvar til fimm sinnum á dag til Kaupmannahafnar og reglulega eru breiðþotur félagsins notaðar í þessar ferðir. Og til marks um mikilvægi þessarar flugleiðar fyrir Icelandair þá lætur nærri að tíunda hver áætlunarferð Icelandair sé til dönsku höfuðborgarinnar á sumrin. Yfir vetrarmánuðina lækkar hlutfallið.

Icelandair er þó ekki eitt um flugið til Kaupmannahafnar því þotur SAS fljúga þessa leið allt árið um kring og það gerði líka WOW air. Tékkneska flugfélagið Czech Airlines spreytti sig einnig á áætlunarflugi milli Íslands og Kaupmannahafnar í haust og byrjun vetrar.

Þrátt fyrir mikla samkeppni þá fjölgaði farþegum Icelandair til og frá Kastrup verulega í fyrra samkvæmt tölum sem Túristi óskaði eftir frá flugmálayfirvöldum í Kaupmannahöfn. Þar kemur fram að Icelandair flutti nærri 402 þúsund farþegar til og frá þessari fjölförnustu flughöfn Norðurlanda í fyrra. Það er aukning um 58 þúsund farþega eða nærri 17 prósent. Hafa ber í huga að árið 2018 fækkaði farþegum Icelandair þó frá árinu 2017 þegar þeir voru um 356 þúsund.

Á lista Kaupmannahafnarflugvallar yfir tuttugu umsvifamestu flugfélögin þar á bæ færist Icelandair því úr fjórtánda sætinu í það níunda. Hafa ber í huga að stór hluti þeira farþega sem nýta sér flugferðir íslenska flugfélagsins til og frá dönsku höfuðborginni eru tengifarþegar, bæði íslenskir og erlendir.