Íslend­ingar á faralds­fæti í fyrra

Jafnvel þó íslenskum farþegum hafi fækkað aðeins á Keflavíkurflugvelli í fyrra þá fóru miklu fleiri til útlanda en á góðærisárunum fyrir efnahagshrunið.

Mynd: Isavia

Það voru 611 þúsund íslensk vega­bréf talin við vopna­leitina á Kefla­vík­ur­flug­velli í fyrra. Aðeins tvisvar sinnum áður hafa þau verið fleiri en það var einmitt árin tvö þar á undan eins og sjá má á töfl­unni hér fyrir neðan. Nýliðið ferða­árið var því sögu­lega mjög gott og til að mynda fóru þrjátíu prósent fleiri út í fyrra en árið 2007. Það ár setti landinn einmitt ferðamet sem stóð allt til ársins 2016.

Farþegaspá Isavia fyrir þetta ár gerir aftur á móti ráð fyrir samdrætti upp á 7 til 8 prósent þegar kemur að ferða­lögum Íslend­inga út í heim. Ef það gengur eftir þá fækkar íslensku brott­far­arfar­þeg­unum um 43 til 49 þúsund í ár. Það þýðir að árið í ár verður ögn betra en árið 2016 ef aðeins er horft til fjölda íslenskra farþega á leið út í heim.

Sem fyrr segir þá byggir talning Ferða­mála­stofu á fjölda íslenskra farþega á því hversu margir sýna íslensk­vega­bréf við vopna­leitina í Flug­stöð Leifs Eiríks­sonar. Íslend­ingar búsettir í útlöndum eru því meðtaldir. Á sama hátt skekkja útlend­ingar búsettir á Íslandi taln­ingu á erlendum ferða­mönnum eins og ítrekað hefur verið fjallað um hér á síðum Túrista.