Íslenska vegabréfið deilir 11. sætinu með því lettneska og slóvenska

Íslensk vegabréf eru gjaldgeng í 180 löndum án vegabréfsáritunar.

vegabref 2
Mynd: Þjóðskrá

Þær eru ekki ýkja margar þjóðirnar sem reka sendiráð hér á landi og því getur það verið tímafrekt fyrir íslenska ferðalanga að sækja um vegabréfsáritanir áður en haldið er til fjarlægari landa. Það er þó bót í máli að íslensk vegabréf eru víða tekin gild án sérstakra áritanna. Þannig ætti landinn að komast í gegnum hundrað og áttíu landamæri með vegabréfið eitt og sér samkvæmt nýútkominni samantekt Henley&Partners.

Árlega gefur fyrirtækið út lista yfir þau vegabréf sem duga best og í fyrra var það íslenska gott og gilt í 181 landi. Þeim hefur því fækkað um eitt en ekki kemur fram hjá Henley&Partners hvaða eina land eða svæði það er.

Sem fyrr er það japanska í fyrsta sæti yfir bestu vegabréf í heimi og í því öðru eru þau sem gefin er út í Singapúr. Eins og sjá má á listanum þá komast frændur okkar á hinum Norðurlöndunum til fleiri landa án áritunar en við.