Jafnvel tvö kínversk flugfélög á leiðinni

Juneyao Airlines er ekki eina kínverska flugfélagið sem sett hefur stefnuna á Ísland samkvæmt sendiherra Kína. Hitt félagið kemur frá Wuhan borg sem nú er í heimsfréttunum vegna kórónaveirunnar.

Hefðbundið farrými í breiðþotu Tianjin Airlines. Mynd: Tianjin Airlines

Í lok mars hefst Íslandsflug kínverska flugfélagsins Juneyao frá Sjanghæ og allt fram í lok október munu Dreamliner þotur félagsins fljúga hingað tvisvar í viku. Vélarnar millilenda reyndar í Helsinki á leiðinni til og frá Keflavíkurflugvelli og því er ekki um beint flug að ræða. Annað kínverskt flugfélag, Tianjin Airlines, fékk afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli fyrir yfirstandandi vetraráætlun en ekkert varð af þeim áformum.

Stjórnendur Tianjin Airlines hafa þó ekki gefið Íslandsflug upp á bátinn samkvæmt því sem fram kom í erindi sendiherra Kína, Jin Zhiji­an, á fundi um móttöku ferðafólks frá Kína sem haldinn var í Reykjavík í vikunni. Þar ræddi sendiherrann væntanlegt flug Juneyao Airlines til Keflavíkurflugvallar og birti um leið glæru sem á var mynd af flugvélum Juneyao Air og Tianjing Airlines. Texti glærunnar var á þá leið að von væri á flugfélögunum báðum eins og sjá má hér að neðan.

Reyndar minntist sendiherrann ekki á Tianjin flugfélagið heldur lét duga að birta mynd af þotu félagsins. Skýringin á því kann að vera sú að Tianjin Airlines gerir út frá borginni Wuhan en þangað eru upptök kórónaveirunnar rakin. Í borginni ríkir ferðabann sem sett var á í von um að hefta útbreiðslu veirunnar. Í Wuhan búa um 10 milljónir manna.

Heimildir Túrista herma að Tianjin flugfélagið hafi í dag ekki sótt um neina afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli fyrir komandi sumarvertíð.

Glæra kínverska sendiherrans sem hann birti í kynningu sinni á fundi með íslensku ferðaþjónustufólki í vikunni. 

NÚ GETUR ÞÚ STUTT ÚTGÁFU TÚRISTA