Kínverska flugfélagið flýgur alla leið til Keflavíkurflugvallar

Dreamliner þotur Juneyao Air munu fljúga til Íslands frá Sjanghæ frá og með vorinu en þó með viðkomu í Helsinki.

Juneyao Air mun nota Dreamliner þotur í flug sitt til Íslands Mynd: Star Alliance

Kín­verska flug­fé­lagið Ju­neyao Air hef­ur boðað flug til Íslands frá Sj­ang­hæ með viðkomu í Hels­inki frá og með byrjun marsmánaðar. Morgunblaðið sagði hins vegar frá því í fyrradag að kínverska félagið hygðist ekki sjálft sinna flug­inu milli Finn­lands og Íslands held­ur leita til annarra flugfélaga þar á meðal Icelanda­ir.

Þetta er þó ekki rétt samkvæmt svari Zicheng Wang, talsmanns Ju­neyao Air, við fyrirspurn Túrista. „Við munum styðjast við eigin flugvélar og starfsfólk í fluginu milli Helsinki og Reykjavíkur og farþegar geta keypt miða frá Sjanghæ til Reykjavíkur með Juneyao Air. Að sjálfsögðu með millilendingu í Helsinki,“ segir í svari Wang.

Icelandair er ekki eina flugfélagið sem flýgur allt árið um kring frá Helsinki til Íslands því það gerir Finnair einnig. Og í svari Ju­neyao Air segir að félagið eigi í samstarfi við Finnair og farþegar geti því keypt farmiða þar sem finnska flugfélagið sér um flugið á leiðinni milli Finnlands og Íslands en kínverska félagið milli Kína og Finnlands. „Einnig er til skoðunar möguleikinn á samstarfi við Icelandair. Við bíðum ákvörðunar um það frá höfuðstöðvum okkar“.

Auk þess að nýta eigin flugvélar í flugið til Íslands þá verður starfsmaður á vegum Juneyao Air staðsettur hér á landi frá og með byrjun mars þegar Íslandsflug kínverska flugfélagsins hefst.

VILTU STYÐJA VIÐ ÚTGÁFU TÚRISTA?