Kínverskir ferðamenn verða að halda sig heima

Frá og með deginum í dag búast forsvarsmenn ferðaþjónustunnar í Noregi og Finnlandi við mun færri kínverskum túristum.

Norðurljósin laða að marga ferðamenn yfir vetrarmánuðina. Í febrúar síðustu ár hafa Kínverjar staðið undir um sex prósent af ferðamannastraumnum. Mynd: Nicolas J Leclercq / Unsplash

Hátt í eitt þúsund Kínverjar hafa afbókað ferðir sínar til finnska hluta Lapplands í kjölfar þess að kínversk yfirvöld settu bann við hópferðum þegna sinna innanlands og utan. Tilgangur bannsins er að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar en upptök hennar eru rakin til borgarinnar Wuhan.

Finnska fréttaveitan Yle hefur það eftir Sanna Kärkkäinen hjá ferðamálaráði Rovaniemi að um sé að ræða fjölda hópa sem flestir hafi seinkað ferðum sínum til Lapplands vegna stöðunnar sem upp er komin.

Í Noregi búast ferðamálayfirvöld einnig við mikilli fækkun kínverskra ferðamanna í kjölfar þess að hópferðir Kínverja út í heim hafa verið stöðvaðar. Í pistli á heimasíðu norskra ferðamálayfirvalda segir að hið skerta ferðafrelsi nái til allra kínverskra ferðamanna sem taki þátt í hópferðum en einnig einstaklinga sem bókað hafi flug og hótel í einum pakka.

Vegna ástandsins munu margar kínverskar ferðaskrifstofur vera í klemmu þar sem þær hafa verið skyldaðar til að endurgreiða viðskiptavinum sínum þær ferðir sem nú þarf að fella niður. Á sama tíma geti kínversku ferðasalarnir ekki sótt endurgreiðslur til ferðaþjónustufyrirtækja erlendis vegna þess hve afbókanirnar eru gerðar með stuttum fyrirvara.

Af þeim sökum munu samtök kínverskra ferðaskrifstofa, CATS, hafa sent út beiðnir til erlendra birgja og óskað eftir rýmri heimildum til að fella niður ferðir án auka kostnaðar samkvæmt því sem fram kemur í pistli á heimasíðu norskra ferðamálayfirvalda. Þar segir jafnframt að í versta falli muni ástandið vara fram á vorið.