Komu þotunum hratt en ekki örugg­lega í loftið

Innanhús samskipti milli sérfræðinga Boeing flugvélaframleiðandans gefa til kynna að þeir hafi ekki veitt eftirlitsstofnunum viðunandi upplýsingar um MAX þoturnar.

MAX þotur við verksmiðjur Boeing. Mynd: SounderBruce / CreativeCommons 4.0)

Það var stjórn­endum Boeing greini­lega mikið kappsmál að þeir flug­menn, sem reynslu höfðu af eldri gerðum af Boeing 737 þotum, þyrftu ekki að fara í gegnum þjálfun í flug­hermi áður en þeir settust undir stýri á nýju MAX þotunum. Og til að ná þessu fram virðast hátt­settir starfs­menn flug­véla­fram­leið­andans, þar á meðal yfir­flug­stjórar, ekki hafa komið hreint fram í samskiptum sínum við flug­mála­yf­ir­völd og flug­félög hér og þar um heiminn.

Hluti sérfræð­inga Boeing dregur líka í efa að þoturnar séu öruggar. Þannig spyr starfs­maður Boeing samstarfs­mann sinn hvort hann myndi fara með fjöl­skyldu sína um borð í MAX flugvél. Sá svaraði því neit­andi.

Þetta er meðal þess sem lesa má í afritum af tölvu­póst­sam­skiptum sérfræð­inga flug­véla­fram­leið­andans þar sem málefni MAX þotanna eru til umræðu. Þessi gögn voru afhend banda­ríska þinginu nýverið og hafa fjöl­miðlar víða um heim fjallað um þau síðast­liðinn sólar­hring.

Stjórn­endur Boeing hafa beðist velvirð­ingar á orðbragðinu sem hluti sérfræð­inga flug­véla­fram­leið­andans notaði í samskiptum sínum tengslum við störf sín. Og þarna eru ekki aðeins að finna tölvu­póst­send­ingar þar sem starfs­menn státa sig af því að komast hjá beiðnum um sérstaka þjálfun flug­manna. Einnig leynast dæmi um niðr­andi orðalag í garð starfs­manna flug­fé­laga eins og Malindo Air, dótt­ur­fé­lags Lion Air, en MAX þota á vegum þess síðar­nefnda fórst 29. október í hittifyrra með 189 manns innan­borðs.

Í mars í fyrra hrapaði svo þota Ethi­opian Airlines með 157 manns og í kjöl­farið voru þoturnar kyrr­settar. Tíu mánuðum síðar varir flug­bannið ennþá en Icelandair er eitt þeirra flug­fé­laga sem hafði fengið afhentar MAX þotur áður en kyrr­setning gekk í gegn. Hefur Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, sagt stöðuna vegna ástandsins vera fordæma­lausa.