Komu þotunum hratt en ekki örugglega í loftið

Innanhús samskipti milli sérfræðinga Boeing flugvélaframleiðandans gefa til kynna að þeir hafi ekki veitt eftirlitsstofnunum viðunandi upplýsingar um MAX þoturnar.

MAX þotur við verksmiðjur Boeing. Mynd: SounderBruce / CreativeCommons 4.0)

Það var stjórnendum Boeing greinilega mikið kappsmál að þeir flugmenn, sem reynslu höfðu af eldri gerðum af Boeing 737 þotum, þyrftu ekki að fara í gegnum þjálfun í flughermi áður en þeir settust undir stýri á nýju MAX þotunum. Og til að ná þessu fram virðast háttsettir starfsmenn flugvélaframleiðandans, þar á meðal yfirflugstjórar, ekki hafa komið hreint fram í samskiptum sínum við flugmálayfirvöld og flugfélög hér og þar um heiminn.

Hluti sérfræðinga Boeing dregur líka í efa að þoturnar séu öruggar. Þannig spyr starfsmaður Boeing samstarfsmann sinn hvort hann myndi fara með fjölskyldu sína um borð í MAX flugvél. Sá svaraði því neitandi.

Þetta er meðal þess sem lesa má í afritum af tölvupóstsamskiptum sérfræðinga flugvélaframleiðandans þar sem málefni MAX þotanna eru til umræðu. Þessi gögn voru afhend bandaríska þinginu nýverið og hafa fjölmiðlar víða um heim fjallað um þau síðastliðinn sólarhring.

Stjórnendur Boeing hafa beðist velvirðingar á orðbragðinu sem hluti sérfræðinga flugvélaframleiðandans notaði í samskiptum sínum tengslum við störf sín. Og þarna eru ekki aðeins að finna tölvupóstsendingar þar sem starfsmenn státa sig af því að komast hjá beiðnum um sérstaka þjálfun flugmanna. Einnig leynast dæmi um niðrandi orðalag í garð starfsmanna flugfélaga eins og Malindo Air, dótturfélags Lion Air, en MAX þota á vegum þess síðarnefnda fórst 29. október í hittifyrra með 189 manns innanborðs.

Í mars í fyrra hrapaði svo þota Ethiopian Airlines með 157 manns og í kjölfarið voru þoturnar kyrrsettar. Tíu mánuðum síðar varir flugbannið ennþá en Icelandair er eitt þeirra flugfélaga sem hafði fengið afhentar MAX þotur áður en kyrrsetning gekk í gegn. Hefur Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, sagt stöðuna vegna ástandsins vera fordæmalausa.