Kórónaveiran: Booking leggur hóteleigendum línurnar

Hótelum ber að fella niður allar bókanir kínverskra gesta án þess að rukka nokkur forfallagjöld samkvæmt bréfi frá hótelbókunarfyrirtækinu.

Mynd: Phife / Unsplash

Kínverjar sem eiga bókaðar hóp- eða pakkaferðir út í heim á næstunni er ekki heimilt að fara úr landi. Ástæðan er ferðabann kínverskra yfirvalda sem sett var á um síðustu helgi til að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar.

Af þessum sökum hafa íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum borist töluvert af afbókunum frá kínverskum viðskiptavinum síðustu sólarhringa og eins munu bókanir frá Kína eiginlega hafa stöðvast um helgina samkvæmt samtölum Túrista við forsvarsfólk nokkurra íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja.

Þetta óvenjulega ástand veldur því skakkaföllum víða og sérstaklega þegar ekki er hægt að fara fram á nein afbókunargjöld til að milda höggið. Þann valkost hafa til að mynda ekki þeir hótelstjórar sem selt hafa gistingu í gegnum Booking.com sem er til mynda mjög umsvifamikið hér á landi.

Í bréfi sem Booking.com hefur sent til hóteleigenda í dag, meðal annars hér á landi, segir að vegna ferðabannsins þá skuli fella niður allar bókanir frá meginlandi Kína, viðskiptavinunum að kostnaðarlausu. Þessi skilmálar gilda til að byrja með á allri gistingu sem bókuð er fram til 8. febrúar í gegnum Booking.com.

Líkt og fram kom hér á Túrista fyrr í dag þá hafa síðustu ár komið hingað til lands um níu þúsund kínverskir ferðamenn í febrúar. Nemur sá fjöldi um sex prósent af heildinni í þeim mánuði.