Mannamót í ferðaþjónustunni í dag

Í hádeginu hefst ferðakaupstefna á vegum Markaðsstofa landshlutanna.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, mætti á Mannamót í fyrra ásamt forsvarsfólki greinarinnar. Mynd: Markaðsstofur landshlutanna

Eftirspurn ferðaþjónustufyrirtækja eftir aðstöðu á Mannamóti hefur aldrei verið meiri og að þessu sinni verða 270 ferðaþjónustufyrirtæki með bása. Mannamótið hefst í hádeginu í dag í Kórnum í Kópavogi og lýkur klukkan 17 seinnipartinn. Að jafnaði hafa um átta hundruð gestir komið á sýninguna síðustu ár samkvæmt tilkynningu.

„Mannamót markaðsstofanna er kynningarvettvangur ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni og tækifæri til að koma á fundum fagaðila í greininni. Tilgangurinn er að kynna landsbyggðarfyrirtæki fyrir ferðaþjónustuaðilum sem staðsettir eru á höfuðborgarsvæðinu. Ísland hefur mikið upp á að bjóða og Mannamót hjálpa til við að mynda tengsl innan ferðaþjónustunnar. Gestum á Mannamóti gefst kostur á kynna sér það sem mismundi landshlutar eru að bjóða uppá með áherslu á vetrarferðamennsku,“ segir í tilkynningu.

Arnheiður Jóhannsdóttir, talsmaður Markaðsstofa landshlutanna og framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, bendir  á að komum erlendra ferðamanna hafi fækkað um 329 þúsund frá árinu 2018. Á sama tíma heyrist þó umræða erlendis frá um að Íslands sé orðið fullt.

„Staðreyndin er hins vegar sú að nóg er eftir að vannýttum innviðum vítt og breitt um landið og á mörgum svæðum eru spennandi áfangastaðir nánast ósnertir allt árið. Tækifærin eru því óþrjótandi fyrir ferðaþjónustuna og lykilatriði að byggja hana þannig upp að landið allt hafi ávinning af. Með stóraukinni kröfu ferðamanna um sjálfbæra uppbyggingu og þjónustu er þetta mikilvægara en nokkru sinni fyrr enda hefur dreifing ferðamanna um landið og stýring gríðarleg áhrif á vernd náttúrunnar, öryggi ferðamanna, uppbyggingu atvinnulífs, þjónustu í byggðum og ekki síst ánægju heimamanna,“ segir Arnheiður.

NÚ GETUR ÞÚ STUTT ÚTGÁFU TÚRISTA