Með forkaupsrétt á ferðaskrifstofum Arion

Fresturinn sem einn fjárfestir fékk til að ganga frá kaupum á fimm norrænum ferðaskrifstofum af íslenska bankanum rennur fljótlega út. Heimsferðir eru ólíklega hluti af viðskiptunum.

Danska eignarhaldsfélagið Travelco Nordic heldur utan um hlut Arion banka í fimm norrænum ferðaskrifstofum. Skjámynd af heimasíðu Travelco Nordic

Stuttu eftir gjaldþrot Primera Air í október 2018 þá flutti Andri Már Ingólfsson rekstur ferðaskrifstofanna sjö sem tilheyrðu jafnframt hinu íslenska Primera Travel Group yfir danskt dótturfélag sem fékk heitið Travelco Nordic. Um mitt síðasta ár tók Arion banki samsteypuna yfir og flutti íslensku ferðaskrifstofurnar Heimsferðir og Terra Nova yfir í sérstakt félag.

Það var yfirlýst markmið Arion við yfirtökuna að selja ferðaskrifstofurnar sem fyrst. Í dag er aðeins Terra Nova, sem sérhæfir sig í skipulagningu Íslandsferða, komin í hendur nýrra eiganda en það var íslenska ferðaskrifstofan Nordic Visitor sem keypti.

Sala á hinum ferðaskrifstofunum sex hefur ekki ennþá borið árangur og nú eru liðnir rúmir tveir mánuðir frá því að Fréttablaðið sagði frá því að söluferli á Travelco væri á lokametrunum. Heimildir Túrista herma að mögulegur kaupandi sé fjárfestingafélagið Triton en það keypti í fyrra hollenska ferðaskipuleggjandann Sunweb.

Framkvæmdastjóri Travelco Nordic, Peder Hornshøj, staðfestir í viðtali við danska ferðaritið Standby í dag að einn fjárfestir hafi fengið forkaupsrétt á ferðaskrifstofunum en fresturinn sem sá hafi fengið sé brátt útrunninn. Það voru aftur á móti þrjú félög sýnt Travelco Nordic á sínum tíma að sögn Hornshøj.

Aðspurður um hvort Arion banka liggi á að selja Travelco Nordic þá segir framkvæmdastjórinn að íslenska bankafólkið verðir sífellt ánægðara með gang mála hjá ferðaskrifstofunum enda sé gangurinn góður í dag. Síðasta ár var þó samsteypunni erfitt eftir fall Primera Air sögn Hornshøj og til marks um það þá fækkaði farþegum ferðaskrifstofanna í Danmörku töluvert í fyrra.

Sem fyrr segir þá setti Arion banki rekstur íslensku ferðaskrifstofanna og þær tilheyra því ekki lengur Travelco Nordic. Og af orðum Hornshøj að dæma þá er eingöngu sala á því fyrirtæki langt kominn. Heimsferðir eru því væntanlega ekki hluti af viðskiptunum ef sú ferðaskrifstofa hefur lengi verið ein af allra stærstu ferðaskrifstofum landsins.

Líkt og Túristi hefur áður greint frá þá vinnur Andri Már Ingólfsson nú að endurkomu sinni í ferðageirann með opnun nýrrar ferðaskrifstofu sem ber heitið Aventura. Sú á að taka til starfa nú í janúar samkvæmt því sem fram kemur í atvinnuauglýsingu. Heimasíða skrifstofunnar hefur þó ennþá ekki verið opnuð.

NÚ GETUR ÞÚ STUTT VIÐ BAKIÐ Á ÖFLUGARI TÚRISTA