Meirihlutinn í Keahótelunum er ekki til sölu

Kaup fjárfesta frá Alaska á meirihluta í Keahótelunum er ein stærsta erlenda fjárfestingin í íslenskri ferðaþjónustu hingað til. Orðrómur um að Bandaríkjamennirnir ætli sér að selja hlut sinn í hótelunum og símafyrirtækinu Nova á ekki við rök að styðjast.

Exeter hótel í Tryggvagötu í Reykjavík er eitt af ellefu hótelum Keahótelanna. Myndir: Keahótelin

Það var síðla sumars árið 2017 sem tilkynnt var um sölu á 75 prósent hlut í Keahótelum, þriðja stærsta hótelfyrirtæki landsins. Kaupandi var fjárfestingafélagið K Acquisitions en að baki því stendur fasteignafélagið JL Properties og eignastýringarfyrirtækið Pt Capital Advisors.

Hið fyrrnefnda eignaðist fjórðungs hlut í Keahóelunum en það síðarnefnda helming. Bæði fyrirtækin eru frá borginni Anchorage í Alaska  í Bandaríkjunum og fara þau jafnframt með meirihlutann í símafyrirtækinu Nova.

Fyrir JL Properties fara þeir Jonathan Rubini og Leonard Hyde, tveir ríkustu menn Alaska fylkis samkvæmt úttekt Forbes. Sá fyrrnefndi hefur verið stjórnarformaður Keahótelanna en í byrjun desember sl. var tilkynnt að Liv Bergþórsdóttir, fyrrum forstjóri Nova og stjórnarformaður WOW, hefði tekið við því hlutverki. Þá kom fram í fréttatilkynningu að hún myndi vinna með eigendum og stjórnendum félagsins að frekari uppbyggingu og þróun.

Þrátt fyrir þá yfirlýsingu hefur verið uppi orðrómur um að fjárfestarnir frá Alaska væru farnir að hugsa sér til hreyfings og hlutirnir í Nova og Keahótelunum væru því falir. Hugh Short, framkvæmdastjóri Pt Capital Advisors, segir þó ekkert til í því. „Við erum mjög ánægð með fjárfestingar okkar á Íslandi og engin áform uppi um að fara út úr þeim á næstunni,“ segir Short í svari til Túrista.

Keahótelin reka sjö hótel í Reykjavík og þar á meðal Hótel Borg við Austurvöll. Auk þess á fyrirtækið tvö hótel á Akureyri, eitt við Vík og annað við Mývatn.

Þessi umsvif gera Keahótelin að þriðja stærsta hótelfyrirtæki landsins. Umsvifamest á þeim markaði er hins vegar Íslandshótelin og þar á eftir kemur hótelrekstur Icelandair Group. Nýverið keypti dótturfélag malasísku samsteypunnar Berjaya 75 prósent hlut í hótelum Icelandair. Gert er ráð fyrir að gengið verði frá viðskiptunum í lok næsta mánaðar en upphaflega var stefnt að því að klára kaupin fyrir síðustu áramót.

NÚ GETUR ÞÚ STUTT ÚTGÁFU TÚRISTA